Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Veiruhömlur og bólusetningarskírteini

Mynd: EPA / EPA
Boris Johnson forsætisráðherra Breta kynnti í gær 2. stig í afléttingu Covid-19 takmarkana, sem verður 12. apríl. Ferðamöguleikar Breta utanlands í sumar eru þó enn óljósir og stærsta spurningin er, eftir sem áður, hvort og þá hvernig bólusetningarvottorð verði gerð að skyldu.

Meira en helmingur fullorðinna Breta bólusettur

Bólusetning gegn Covid-19 gengur áfram vel í Bretlandi. Eins og Boris Johnson forsætisráðherra sagði í viðtali á Sky sjónvarpsstöðunni í morgun: það er búið að bólusetja 31,5 milljónir Breta einu sinni, rúmar fimm milljónir búnar að fá seinni sprautuna.

Óútkljáður vandi: hvernig á að nota bólusetningarvottorð?

Allt mjög jákvætt en eftir sem áður óútkljáð hvernig bólusetningin verði nýtt, það er hvort og hvernig eigi að nota bólusetningarvottorð.

Forsætisráðherra slær úr og í

Bretar hafa lært að það er verklag forsætisráðherra að slá úr og í. Í febrúar gaf Johnson í skyn að kannski þyrftu Bretar að venja sig við þá tilhugsun að sýna vottorð til að fara á krána. Stór hluti þjóðarinnar rak upp mikið ramakvein. Gengi guðlasti næst að krefjast þess að fólk mætti á pöbbinn með skírteini upp á vasann eða í símanum.

Það þarf engin skírteini á næstunni

Og enn er allt óljóst um bólusetningarskírteini. Næsta losun á veiruhömlum, núna 12. apríl, síðan 16. maí og svo 21. júní, þegar öll höft eiga að hverfa, gera ekki ráð fyrir neinum skírteinum, sagði forsætisráðherra á blaðamannafundi í gær. Þegar við höfum slíkar áætlanir þá munum við kynna þær, sagði Johnson.

Ekki skírteini í búðir og á krána en á fjöldasamkomur

Nú þykir sýnt að ekki muni þurfa skírteini til að komast á krána eða í búðir. En líklega á fjöldasamkomur, til dæmis útihátíðir eða fótboltaleiki. Þar er rætt um að gestir þurfi að sýna bólusetningarskírteini, vottorð um að hafa fengið Covid-19 eða neikvæða niðurstöðu skimunar. Þetta verður prófað á næstunni. Og jú, bólusetningarvottorð fyrir utanlandsferðir en þar þurfi alþjóðlegt samstarf, sagði forsætisráðherra.

Leiðtogi Verkamannaflokksins: skírteinisskylda væri óbresk

Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins óð nýlega inn í þessa skírteinaumræðu. Áleit það óbreskt að gera bólusetningarskírteini að skyldu. Stríddi algjörlega gegn breskum skilningi á hvaða skyldur væri hægt að leggja á fólk.

Yfirlýsingin kom nokkuð á óvart. En átti kannski að vera þrándur í götu stjórnarinnar, sem glímir við andóf af þessum toga í þingflokki Íhaldsflokksins, síðast í dag forsíðuefni Financial Timesv. Og allt tengist þetta áratuga deilum í breskum stjórnmálum um kennitölur og nafnskírteini, hvorugt innleitt hér.

Ekki einfalt mál að búa til innviði fyrir bólusetningarskírteini

Ein staðreynd um bólusetningarskírteini heyrist lítið rædd. Eitt er að ákveða hvar og hvernig þessi skírteini verði notuð. Annað er að koma þeim á. Kannski verið að vinna í því en tæknifróðir benda á að það taki drjúgan tíma að byggja innviði fyrir skírteinin.

Margskonar hömlum aflétt 12. apríl

Blaðamannafundur forsætisráðherra í gær snerist um kynningu á hvað verður opnað á næstunni. Frá 12. apríl mega veitingastaðir bera fram mat utandyra. Aðrar búðir en matarbúðir opna, líka gallerí og svo einstaklingsþjónusta eins og nudd og hárgreiðsla. Heilsuræktir opna, þó án hóptíma. Frá og með miðjum maí opnar veitingasala innanhúss, einnig menningarstarfsemi innan dyra eins og söfn og leikhús. Erfitt að trúa því en 21. júní á allt að verða opið.

Utanlandsferðir Bretum heimilar frá miðjum maí – en fyrirkomulagið á huldu

Fræðilega séð verða utanlandsferðir heimilar frá miðjum maí, fyrirkomulagið á huldu en skýrist væntanlega 12. apríl þegar vinnuhópur ríkisstjórnarinnar á að skila áliti. Litakóðakerfi, umferðaljósakerfi, verður líklega ofan á. Þá opið til og frá grænum löndum, með lítið smit og hátt hlutfall bólusetninga, sóttkví og skimun frá gulum löndum og hótel-sóttkví, eins og nú er, frá rauðum löndum. Í viðbót án efa bólusetningarskírteini, meðan skimanir, ekki síst vegna kostnaðar í viðbót við annan ferðakostnað, eru deiluefni.

Hagkerfi höfuðborgarinnar gæti tekið hratt við sér – en það vantar ferðamennina

Forsætisráðherra sagðist í gær hafa fulla trú á að hagkerfi höfuðborgarinnar myndi taka hratt við sér. Leiðin til þess væri að fá fólk aftur inn í miðborgina, opna búðirnar, koma stórborgarmaskínunni aftur í gang. Og svo væri það auðvitað menningarlífið.

En það voru aldrei heimamenn sem héldu einir lífinu í miðborginni heldur þær 18 milljónir ferðamanna sem hafa árlega heimsótt London undanfarin ár. Miðborgin með búðir, veitingastaði og menningarstofnanir af öllu tagi hefur rokna aðdráttarafl. Það er með London eins og Reykjavík, ágætt að njóta þar lífsins án ferðamanna. En ef á að halda í fjölbreytnina í veitingastöðum og annarri þjónustu þá þarf fleiri en heimamenn eina saman. Og þá er aftur komið að þeim óleysta vanda hvernig megi nota bólusetningarskírteini til að hleypa krafti í hagkerfið.