Urðu varir við yfirborðssprungur á milli gosanna

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Björgunarsveitarmenn á vakt við gosstöðvarnar urðu varir við nýjar yfirborðssprungur á milli gosstöðvanna tveggja í nótt. Ekki er víst að sprungurnar hafi myndast í nótt en þær gefa til kynna hvar kvikugangurinn liggur undir gösstöðvunum. Heildarrennsli kviku upp á yfirborð hefur aukist eftir að sprungurnar opnuðust í gær.

Mbl.is greinir frá sprungunum.  Yfirborðssprungan er um 150 metra löng og liggur á milli gosstöðvanna í Geldingadölum og sprungnanna sem opnuðust á hádegi í gær skammt norðaustan við Geldingadali. 

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að ekki sé víst að sprungan hafi myndast í gær, hún kunni að hafa verið til staðar en hennar varð fyrst vart í nótt. Ekki hafi mælst gasuppstreymi frá sprungunni en hitauppstreymi hafi mælst. Þá hafi einnig orðið vart við jarðsig við sprunguna. Sprungur sem þessar gefi vísbendingu um hvernig kvikugangurinn, sem virðist fóðra bæði gosin, liggur undir yfirborðinu. Alltaf sé hætta á að kvika komi upp á yfirborð á stöðum sem þessum. 

Eftir að nýju sprungurnar opnuðust um hádegisbil í gær hefur heldur dregið úr virkni eldstöðvarinnar í Geldingadölum. Þegar mest lét streymdu þar um fimm til sex rúmmetrar af kviku upp á yfirborð á hverri sekúndu. Heildarhraunrennsli frá eldstöðvunum tveimur er meira nú að sögn Einars Bessa. Samanlagður straumur frá þeim er um tíu rúmmetrar á hverri sekúndu. 

 

Íbúar í Vogum á Vatnsleysuströnd voru beðnir að hafa lokaða glugga hjá sér vegna gasmengunar. Samkvæmt loftgæðamælingum Umhverfisstofnunar fór styrkur brennisteinsdíoxíðs yfir hættumörk á milli mælinga  klukkan 21 og 22 í gærkvöld en snarlækkaði svo aftur og hefur verið í góðu lagi síðan. Samkvæmt spá Veðurstofunnar má búast við að gasmengun berist suðvestur og suður af gosstöðvunum í dag.