Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þórólfur telur úrskurðinn auka smithættu - dómi áfrýjað

06.04.2021 - 11:18
Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir / Ljósmynd/Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, sem úrskurðaði síðdegis í gær að ríkið mætti ekki skikka þá í sóttkví í sóttvarnahúsi sem kærðu dvölina, sé óheppilegur. Lagaleg skilgreiningaratriði hafi verið óljós að hans mati.

Þórólfur staðfesti að dómnum verði áfrýjað til Landsréttar. Hann sagði dóminn óheppilegan út frá sóttvarnasjónarmiðum og geti sett sóttvarnir hér á landi í uppnám. Hann sagði að ef dómurinn fái að standa muni hætta á smitum aukast innanlands, með alvarlegum afleiðingum og að síður verði hægt að aflétta takmörkunum.

Hann segir að um 15 af 250 gestum sóttvarnahúss hafi ákveðið að fara af sóttvarnahótelinu eftir dóminn, eins og bauðst, og klára sóttkví heima.

Þórólfur hefur skorað á stjórnvöld að tryggja lagagrundvöll sóttvarna sem fyrst svo hægt sé að viðhalda aðgerðum áður en bólusetning nær meiri útbreiðslu. Ef ekki getur það valdið skaða.

Engin ákvörðun um seinni sprautu AstraZeneca

Þórólfur sagði að ekki væri búið að ákveða næstu skref varðandi fólk yngra en 70 ára sem fékk fyrri sprautu með bóluefni AstraZeneca. Enn er óljóst hvort það fái seinni sprautuna, eða jafnvel eitthvað annað bóluefni.

Þórólfur sagði að rannsóknir væru nú í gangi hvort hægt sé að gefa seinni skammtinn með einhverju öðru bóluefni og að þegar hafi nokkrar þjóðir ákveðið að gera slíkt.

Þórólfur sagðist óttast að veiran sé enn falin úti í samfélaginu og að ef slakað verði á aðgerðum muni hún dreifast hratt á milli.