Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þórólfur hefur áhyggjur af landamærunum

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir hætt við að smit berist inn í landið og hleypi af stað nýrri bylgju ef ekki verða tryggðar fullnægjandi sóttvarnir á landamærunum. Reglur á landamærum voru rýmkaðar á miðnætti þegar fólki frá löndum utan Schengen-svæðisins var gert kleift að koma hingað til lands án þess að fara í sóttkví framvísi það vottorði um bólusetningu eða yfirstaðna sýkingu. Og eftir úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í gær eru komufarþegar ekki lengur skikkaðir í farsóttarhús.

Óttast að smit leki yfir landamærin

„Já, ég hef ákveðnar áhyggjur af því að ef við förum að fá mikið af farþegum hingað muni eitthvað undan láta. Þannig að við komum til með að sjá aukningu í faraldrinum hér innanlands þegar við höfum ekki náð meiri útbreiðslu bólusetningar. Ég bendi vissulega á að þeir sem komast hingað inn utan Schengen-svæðisins eru með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu og þurfa að fara í skimun við komu en þurfa ekki að fara í sóttkví, þannig er nú reglugerðin. En það er ýmislegt að gerast sem ég hef áhyggjur af að geti valdið því að við fáum meira af leka af smiti inn í landið,“ segir Þórólfur.

Ekki síður fólk sem býr hér sem brýtur sóttkví

Það myndi ekki nægja að skikka erlenda ferðamenn í sóttvarnahús við komuna til landsins, segir Þórólfur. Það séu ekki síður þeir sem búa hér sem brjóti reglur um sóttkví. 

„Veikleikinn í þessu kerfi sem við höfum bent á er að þetta er fólk sem er með aðsetur hér og íslenska kennitölu sem við höfum verið að greina hér og finna hér. Þannig að þetta er ekki bara spurning um erlenda ferðamenn og svo aðra. Ég vildi að þetta væri þannig klippt og skorið, en það er bara ekki þannig,“ segir hann. 

Hvað annað en sóttvarnahús?

Þórólfur segir enn óljóst hvaða aðrar aðgerðir hann leggur til á landamærunum, verði ekki hægt að treysta lagagrundvöllinn fyrir því að skylda komufarþega í sóttvarnahús. 

„Minnisblöð mín til þessa um landamærin hafa verið að ég bendi á ákveðna veikleika sem við erum með og hvet stjórnvöld til að bæta það. Ég er ekki með lögformlegar leiðir í einstaka atriðum heldur er ég þá að vinna það áfram með ráðuneytinu um það hvaða leiðir eru færar. Ég er ekki tilbúinn til að segja neitt um það, en það getur ýmislegt komið til greina,“ segir Þórólfur.