Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það varð einhver feill í pípulögninni“

Mynd: Björn Oddsson / Almannavarnir
Aðdragandi þess að ný sprunga opnaðist í eldgosinu á Reykjanesskaga í gær er líklega sá að þrýstingurinn var orðinn svo mikill á upphaflegu eldstöðinni að hraunið fann sér aðra leið út. Þetta segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Hann segir að nýja sprungan sé að öllum líkindum framhald á upphaflega gosinu sem hafi fundið sér aðra leið upp á yfirborðið þegar fram liðu stundir.

„Það sem virðist hafa gerst í Geldingadölum er að það var búið að byggja það hátt upp gígkeiluna og það stóð orðið svo hátt kvikuborðið í honum að þrýstingurinn í þessari pípu var orðinn hár. Þannig að kvikan hreinlega braust út úr pípunni, sennilega vegna þrýstings. Þá byrjaði að myndast ný sprunga eða nýr gangur sem ferðaðist kílómetra til norðurs og fann leið upp á yfirborðið þar,“ sagði Páll í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Páll sagði allt benda til þess að nýju sprungurnar, hvaðan hraun flæðir inn í Meradali, komi úr sömu kvikurásinni og gígarnir í Geldingadölum. Nýju sprungurnar séu til marks um að kvikurásin hafi fengið nýja framrás á yfirborðinu. 

„Þetta er tengt að neðanverðu í gegnum þennan gang sem var mikið talað um á sínum tíma, sem tróðst þarna inn upp úr 24. febrúar. Þetta kemur beint upp úr honum, báðar þessar rásir. Að öllum líkindum er tenging á þessum einhvers staðar, sem píparar myndu kalla T-tengi. Það er að öllum líkindum sama kvikan sem er að koma þarna upp. Það myndum við kalla sama gosið,“ sagði Páll. „Það varð einhver feill í pípulögninni þannig að pípan kom upp á vitlausum stað í gær.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV