Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skapandi svar höfundar við loftslagsvánni

Mynd: Gassi / Forlagið

Skapandi svar höfundar við loftslagsvánni

06.04.2021 - 12:34

Höfundar

Gauti Kristmannsson bókmenntagagnrýnandi Víðsjár fjallar um bókina Stríð og kliður eftir Sverri Norland. Í henni glímir höfundur við ýmsar stærstu spurningar samtímans.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Mér er minnisstætt eitt augnablik úr Silfrinu fyrir nokkru, þegar einhver miðaldra stjórnmálamaður, sem ég man ekki lengur hver er, fór að tala um „börnin okkar“ í samhengi við loftslagsbreytingar og þingkona Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sneri hann niður á augabragði með því að benda honum á að hegðun hans og afstaða skyti skökku við, þar sem honum væri greinilega alveg sama um „börnin okkar“ í þessu efni. Hún notaði ekki þessi orð, en þetta stakk mig, sjálfan miðaldra karl í millistétt, líkast til af þeirri kynslóð sem skilur eftir sig risavaxnasta kolefnispor sem nokkur kynslóð hefur stigið.

Sverri Norland verður líka hugsað til barna sinna í þessari nýjustu bók sinni, en afstaða hans, og vonandi hegðun, er af allt öðrum toga. Hann segist ekki vera að leita neinna lausna, en gerir það nú samt, hann reynir að byggja upp hálfútópíska hugmynd um að einhverja leið út úr ógöngunum megi finna með sköpunarkrafti og kannski fyrst og fremst bókmenntum og lestri, þar sem hugur okkar gæti fengið einhvern griðastað fyrir hinni alltumlykjandi tækni samtímans.

Þessi bók er samsafn hugleiðinga, esseyja, um hver staða jarðarinnar og lífsins á henni er, hversu illa er komið fyrir henni; er nánast yfirlýsing, kannski hans kynslóðar, um að tími viðbragða sé núna og að þau viðbrögð geti falist í sköpun. Ég er svo forn að mesta áhyggjuefni minnar kynslóðar, og reyndar einhverra á undan og eftir, var kjarnorkuváin í kalda stríðinu og eftir Tsjernóbíl, einnig friðsamleg nýting kjarnorkunnar. Þær áhyggjur eru nú ekki svo miklar lengur, þrátt fyrir að kjarnorkusprengjur séu enn til í þúsundatali. Loftslagsváin stendur okkur miklu nær núna og ekki síst þeim sem eiga ung börn eða unglinga, því það er löngu kominn tími til að við gerum okkur grein fyrir því hvernig jörð við skilum einmitt afkomendum okkar.

Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði, sem mikið hefur ritað um þessi mál, orðaði það svo einhverju sinni við mig, að okkar kynslóð fengi harðan dóm þeirra síðari, vegna þess að við vissum hvað væri í vændum, en gerðum nánast ekki neitt til að forða þeim frá þeim ósköpum. Það er einmitt þess vegna að mín kynslóð ætti ekki að hjala um börnin sín í þessu samhengi.

Stríð og kliður er skapandi svar höfundar við þessu ástandi, sem hann vill kalla svo, og þótt hann bjóði ekki upp á neina patentlausn er þetta nauðsynleg og mikilvæg bók í þessa umræðu, sem legið hefur í láginni vegna faraldursins, þar sem fólk bíður í ofvæni eftir bólusetningu til þess að geta sett allt á fullt aftur, skapa atvinnu, afla fjár og halda áfram að gereyða plánetunni. Endurnefning hans á homo sapiens, hinni viti bornu manneskju, í homo narcissus, eða hina sjálfhverfu manneskju er því alls ekki galin. 

Bókin fjallar hins vegar um þessi mál út frá mörgum sjónarhornum og er að sumu leyti lofsöngur til ímyndunaraflsins og sköpunargleðinnar; hún byrjar eiginlega á því að segja frá sköpunarkrísu höfundarins andspænis því hrikalega ástandi sem sem heimurinn er í og það má vel samþykkja það, að manni sé oft skapi næst að fallast hendur í þessu samhengi, ekki síst meðan ýmis ráðandi öfl í heiminum láta eins og ekkert sé að gerast eða hreinlega afneita þessu. Dýrategund sem stefnir markvisst að eyðingu eigin lífs getur ekki talist viti borin og svarið við því, að mati höfundar, felst ekki bara í því að hlusta á vísindin, heldur einnig sköpunarkraftana og samband þeirra við náttúruna.

Esseyjurnar innihalda líka töluverða gagnrýni á tæknivæðingu samtímans og þá þrælslund sem við sýnum þessum tækjum, snjallsímum, tölvum og úrum, þessum stafræna heimi sem er að gleypa okkur á sama tíma og lífríki náttúrunnar, þúsundir dýra- og plöntutegunda eru að þurrkast út. Þetta gæti úr mínum munni látið í eyrum eins og nöldur miðaldra karls sem hneykslast á öllu þessu fánýti, bara af því að hann er orðinn eitthvað eftir á í tækninni (sem ég er), en Sverrir er af annarri kynslóð og tekur þetta allt öðrum tökum og rökum. Hann skoðar þetta út frá stríðinu gegn náttúrunni, hernaðinum gegn landinu eins og Laxness orðaði það á sínum tíma, og kliðnum sem öll nútímatæknin deyfir okkur með í sífelldri síbylju sinni og skjáglápi.

Á köflum verður þetta dálítið nostalgískt ákall eftir gamla góða bóklestrinum, til þess að við getum hreinlega fundið fyrir okkur sjálfum í þessum stanslausa klið. Titillinn er skemmtilegur orðaleikur upp úr titli skáldsögu Tolstojs, en er það ekki einungis, hann hefur sína eigin merkingu. Reyndar vitnar höfundur til Tolstojs í bókinni og reyndar margra annarra og færir það skilmerkilega til bókar með heimildaskrá og aftanmálsgreinum, svo að esseyjurnar fá á sig örlítinn akademískan blæ, án þess þó að frjálsræði formsins bíði nokkurn skaða af. Þrátt fyrir tesuna um stríðið og kliðinn gleymir hann ekki að þetta er ekkert einfalt mál og bendir á: „Einhvern veginn þannig mætti lýsa sambandi okkar við hamfarahlýnunina: við klikkumst ef við hugsum um hana; það væri klikkun að hugsa ekki um hana“ (25).

Þetta eru þær ógöngur sem við erum í, hvað sem faraldrinum líður, og þarft að minna á það aftur með skáldatökum, eins og Andri Snær Magnason gerði líka fyrir skömmu með eftirminnilegum hætti. En eins og hinn síðarnefndi leitar hann ekki eingöngu í vísindin til að skoða málin, enda má segja að ef menn tækju fullt mark á þeim, þá væri löngu búið að grípa til aðgerða; nei, það þarf að höfða til annarrar sjálfbjargarviðleitni mannkyns, fá það til að skynja og skilja vandann, finna hann undir hörundinu og það er kannski best að gera það með tækjum skáldskaparins eða listarinnar, að snerta hið mannlega eðli með honum svo að það skynji hreinlega hvað er á bak við þurrar tölur og skýrslur vísindamanna. Skáldskapurinn getur veitt okkur eitthvað sem líkist persónulegri reynslu og þannig ýtt betur við okkur, eða það sýnist mér að minnsta kosti vera sú von sem höfundurinn ber í brjósti, út frá hans eigin reynslu í baráttu við sköpunarkrísuna sem áður var nefnd. Það má vel vona það, þótt þeim sem þetta skrifar og segir finnist sú von vera veik, en þess þá heldur, það þarf einhvern veginn að finna leiðina að fólkinu, svo það ýti heiminum á betri stað, áður en skaðinn verður meiri. Ég vona sannarlega að uppkomandi kynslóðir taki við keflinu með skapandi hætti og bjargi okkur og sjálfum sér úr þessum mestu ógöngum mannkyns í sögu þess frá upphafi, og standi þannig undir heitinu að vera viti bornar.