Sex sexí hlutir sem við höfum lært um kynlíf

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sex sexí hlutir sem við höfum lært um kynlíf

06.04.2021 - 17:01

Höfundar

Í hlaðvarpsþættinum Klukkan sex hafa Indíana Rós Ægisdóttir, kynfræðingur, og Mikael Emil Kaaber rætt kynlíf frá öllum mögulegum hliðum. Þættirnir voru tíu talsins og umræðan fór um víðan völl, rætt var um einnar nætur gaman, getnaðarvarnir, sjálfsfróun, kynlífstæki, hinseginleika, fantasíur og margt fleira.

Það var því ýmislegt fróðlegt sem kom fram í þáttunum og hér fyrir neðan eru nokkrir merkilegir punktar. Þættirnir eru að sjálfsögðu enn aðgengilegir í spilaranum og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Samskipti eru mikilvæg þegar stundað er einnar nætur gaman
Í fyrsta þætti ræddu Indíana og Mikael einnar nætur gaman sem mætti mögulega skilgreina sem það þegar tveir eða fleiri aðilar stunda kynlíf í eitt skipti án þess að ásetningur sé um að koma á áframhaldandi sambandi. Indíana segir að kostir þess séu margs konar, til dæmis fyrir þau sem eru ekki að leita sér að sambandi eða eru nýkomin úr sambandi. 

Þó svo að samband sé ekki markmiðið með einnar nætur gamni þá segir Indíana það ætti samt ekki að þýða að það eigi ekki að vera gott. Fólk gleymi oft samskiptum þegar það stundi einnar nætur gaman og talar ekki um hvað því finnst gott.

„Fólk er nakið með tunguna upp í hvort öðru og kynfærin á hvort öðru, en getur ekki talað saman,” bætir hún við. 

Í þættinum um stefnumótamenningu ræddu þau líka hvað heiðarleiki er mikilvægur, hvort sem um er að ræða einungis kynlíf og einnar nætur gaman eða eitthvað meira. Væntingar fólks geta breyst með tímanum en með heiðarlegum samskiptum er vonandi hægt að koma í veg fyrir aragrúa af brotnum hjörtum.

Hormónar eða ekki hormónar? Allavega ekki Filippo Berio
Í þætti um getnaðarvarnir fengu Indíana og Mikael til sín sérfræðing, Snædísi Ingu Rúnarsdóttur, varaformann Ástráðs, kynfræðslufélags læknanema. Ástráður er félag sem rekið er með það að markmiði að fræða ungmenni landsins um kynlíf, kynheilbrigði og samskipti og á vefsíðu félagsins má finna heilmikið af upplýsingum. 

Meðal þess sem þarf að hafa í huga þegar kemur að getnaðarvörnum er að þær geta annars vegar verið hormónagetnaðarvarnir og hins vegar getnaðarvarnir án hormóna. Hormónagetnaðarvarnir á borð við pilluna, lykkjuna, stafinn, plásturinn, sprautuna og hringinn, hafa þannig áhrif á blæðingar og koma í veg fyrir egglos. Snædís ræddi meðal annars að það fari mjög eftir einstaklingum hvað henti þeim, sumum finnst erfitt að muna eftir því að taka pilluna á hverjum degi og lykkjan getur hentað einhverjum sem ætlar ekki að eignast börn á næstunni af því hún getur verið í leginu í langan tíma, svo dæmi séu tekin. 

Hormónagetnaðarvarnir koma hins vegar ekki í veg fyrir að smitast af kynsjúkdómum. Það þarf að nota smokkinn til að slíkir sjúkdómar berist ekki á milli. Þá er gott að muna að það fer eftir getnaðarvörnum hversu miklar líkur eru á því að þær klikki, ef pillan er ekki tekin á réttum tíma minnkar til dæmis virkni hennar. Smokkur sem er heill ætti að vera öruggur en hann getur líka rifnað, hann getur dottið af, það getur verið lítið gat á honum og Indíana bætir við að smokka ætti ekki að geyma í veski því það fari mjög illa með hann og geti jafnvel eyðilagt hann án þess að eigandinn átti sig á því.

Svo geta utanaðkomandi hlutir líka haft áhrif á virkni hans en í einum þættinum sagði Mikael skoplega sögu af því hvernig Filippo Berio-ólífuolía hafði verið notuð sem sleipiefni í einnar nætur gamni. Indíana benti á að slíkt sé ekki sérstaklega heppilegt þar sem að olían geti leyst upp latexið sem er í smokkum.

Hver er lykillinn að góðu kynlífi?
„Hvernig verður maður góður í rúminu?“ er spurning sem margt fólk vill eflaust vita svarið við og var viðfangsefni þriðja þáttar þar sem rætt var við Aldísi Þorbjörgu Ólafsdóttur, sálfræðing og kynlífsráðgjafa.

Aldís segir að meginatriðið sé að þekkja sig og læra inn á eigin líkama, prófa sig áfram í sjálfsfróun og skoða hvað það er sem kveikir í þér. Mikilvægt sé að reyna að vera svolítið í augnablikinu og Aldís segist oft vinna með fólki sem sé fast í hausnum á sér og geti ekki notið þess sem er að gerast í augnablikinu. 

„Síðan er það að tala saman, þekkja inn á sinn líkama, geta svo tjáð hvað það er sem virkar... og geta miðlað í miðju kynlífi, meira, minna, svona, þarna. Svo er þetta bara æfing” bætir hún við.

Sítrusávextir sennilega ekki heppilegir til sjálfsfróunnar
Það er hægt að stunda sjálfsfróun á ýmsa vegu, með höndunum, sturtuhausum og kynlífstækjum svo dæmi séu tekin. Sumir bregða á það ráð að nota það sem finnst í ísskápnum en Indíana segist ekki mæla sérstaklega með sítrusávöxtum enda valdi þeir aðallega sviða. Auk þess sé mikilvægt að muna af maður ætli að nota eitthvað á kynfærin sem ekki er gert fyrir kynfæri sé mikilvægt að skola það og setja jafnvel smokk yfir.

Indíana segir auk þess mikilvægt að muna að sjálfsfróun sé eðlileg og að henni eigi ekki að fylgja skömm, sem getur oft orðið til hjá fólki þegar lítið er rætt um sjálfsfróun. Gamlar mýtur geti líka haft áhrif, maður verði ekki blindur né hárugur í lófunum þegar maður stundar sjálfsfróun. Þá sé heldur ekki til nein eðlileg tala um fjölda skipta sem maður fróar sér. 

„Þetta er oft mjög sveiflukennt hjá fólki, þú fróar þér kannski ekki í þrjá mánuði og svo allt í einu fróaru þér fimm sinnum á dag,” segir Indíana. 

Það að vera hinsegin er ekki tímabil
Ingileif Friðriksdóttir, stofnandi Hinseginleikans, ræddi hinseginleika við Indíönu og Mikael. Hún segir margar mýtur enn mjög ríkjandi og sumu fólki finnist það eiga rétt á því að spyrja ýmiss konar óviðeigandi spurninga af því að að einstaklingur fellur ekki inn í eitthvað norm. „Ein af þessum mýtum sem er enn þá mjög lifandi er að fólk heldur að það að vera hinsegin sé tímabil.

„Þetta er mjög lífseigt þegar kemur að trans og kynsegin fólk að fólk heldur að það að vera kynsegin sé bara viðkomandi að vera unglingur að rasa út og svo muntu bara ákveða þig seinna meir,“ nefnir Ingileif sem dæmi. 

Ingileif gerði þættina Hinseginleikinn fyrir RÚV árið 2018 þar sem samkynhneigð, trans, pan- og tvíkynhneigð, intersex, eikynhneigð og kynsegin var skoðuð. Þættirnir eru enn aðgengilegir í spilaranum en hér fyrir neðan má sjá fjórða þáttinn í seríunni sem fjallar um pan- og tvíkynhneigð. 

Mynd: RÚV núll  / RÚV núll
Hér má sjá fjórða þátt Hinseginleikans.

Fantasíur þýða ekki endilega að þig langi að prófa eitthvað í raunheimum
Sigga Dögg, kynfræðingur, ræddi fantasíur í þætti tileinkuðum þeim en hún segir þær vera góða æfingu til að beisla hugann til að halda sér við efnið. Heilinn og hugurinn séu nefnilega mikilvægir í kynlífi og það að ímynda sér fantasíur sé leið til þess að halda niðri truflandi hugsunum og halda sér í stuði, janfvel keyra stuðið upp. 

Hún segir mikilvægt að muna að fantasíur um ákveðna manneskju eða ákveðna athöfn þurfi ekki að þýða að þig langi að prófa það, það þarf ekki að þýða að þú laðist að viðkomandi manneskju eða laðist minna að manneskjunni sem þú ert með, hausinn geti bara auðveldlega farið út um allt. 

„Mannsheilinn virkar bara svona, hann er með bullandi ADHD alltaf út um allt. Ég veit ekki um neina manneskju sem stundar kynlíf sem horfir á manneskjuna sem hún er með og hugsar: Ég er bara að hugsa um þig og ég er bara að hugsa um það sem við erum að gera akkúrat núna, heilinn minn er hvergi annars staðar,“ bætir Sigga Dögg við. 

Ýmislegt fleira sem ekki var talið upp hér var rætt í þáttunum, til dæmis kynlífstæki, stefnumótamenning og karlmennska svo fátt eitt sé nefnt. Ef þú misstir af einhverjum þætti þá má nálgast alla Klukkan sex-þættina í spilaranum og í öllum helstu hlaðvarpsveitum. 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Stefnumótamenning- forritin hjálpa í heimsfaraldri

Mannlíf

Fantasíur eru góð leið til að halda þér við efnið

Mannlíf

„Karlmennskuhugmyndir eru ótrúlega takmarkandi“

Mannlíf

Getnaðarvarnir veita kynfrelsi