Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sárafáir fóru á sóttkvíarhótelið

Beðið eftir flugfarþegum frá Ósló.
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Sárafáir þeirra sem komu til landsins með flugi í dag fóru á sóttkvíarhótel, segir yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli. Karlmaður sem ákvað að fara heim til sín og kona sem ákvað að fara á sóttkvíarhótel gefa sömu skýringuna, það hafi verið þægilegast. Í dag gat fólk í fyrsta skipti komið frá löndum utan Schengen og vísað vottorðum um bólusetningu eða fyrra smit.

Staðan er snúin á Keflavíkurflugvelli eftir að héraðsdómur dæmdi reglugerð um dvöl komufarþega á sóttkvíarhóteli ólöglega. Þetta segir Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn. Hann segir lögreglu ekki geta metið heimilisaðstæður fólks þar sem það stendur frammi fyrir þeim á flugvellinum. Lögreglan reyni að grisja út þá sem séu ótrúverðugir og ætli að vera hér skemur en sem nemur fimm daga sóttkví. Hann segir erfitt að skikka fólk á sóttkvíarhótel. „Allavega ekki þeir sem eiga hér heimili. Þórólfur hefur margbent á það að það er ekki síst fólk sem býr á Íslandi og er með lögheimili og kennitölu,“ segir Sigurgeir. „Það hafa einhverjir sárafáir farið á sóttkvíarhótelið sem ríkið er með á leigu.“

Katrín Sunna Brynjólfsdóttir og Baldvin Fróði Hauksson komu með vélinni frá Ósló í dag. Hún fer á sóttkvíarhótel en hann heim.

„Það er eiginlega bara þægilegra,“ sagði Katrín Sunna við komuna til Íslands. „Ég er búsett í Noregi en er að koma að vera hjá fjölskyldunni í sumar. Ég á ekki svefnherbergi heima þannig að það er þægilegra að fara á hótelið. Þá er maður ekki ofan í öðru fólki eða svoleiðis.“

„Nei, ég er feginn að sleppa við það. Ég er með séríbúð sem ég get farið í,“ segir Baldvin Fróði, um að þurfa ekki að fara á sóttkvíarhótel. Hann hafi þó gert ráð fyrir því að verja næstu fimm dögum þar þangað til fréttir af dóminum í gær bárust. „Ég hélt að ég væri að fara í það en það er þægilegra að geta farið heim.“

Frá og með deginum í dag getur fólk komið frá löndum utan Schengen en það framvísar vottorði. Fólk þarf að fara í sýnatöku þótt svo það framvísi vottorði um bólusetningu eða að það hafi áður fengið COVID. Sigurgeir sagði starfsmenn í landamæraeftirlitinu hafa séð margvísleg vottorð undanfarið og nú myndi fjölbreytni þeirra væntanlega aukast.