Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Opnað upp að gosstöðvunum í fyrramálið

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Almenningi gefst í fyrsta sinn kostur á að virða nýju sprungurnar fyrir sér með eigin augum á morgun en opna á upp að gosstöðvum snemma í fyrramálið.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum sendi frá sér tilkynningu nú á fjórða tímanum þar sem tilkynnt er um að opnað verði upp að gosstöðvunum klukkan sex í fyrramálið. 

Opið verður í 12 klukkustundir, eða til klukkan 18 annað kvöld. Ef þörf krefur verður lokað fyrr. Þá kemur einnig fram að rýma á gossvæðið klukkan 22 annað kvöld. Fólk er hvatt til að klæða sig eftir veðri og vera vel búið áður en það leggur af stað. 

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum frá því í morgun kom fram að endurskipuleggja eigi vöktun og starf viðbragðsaðila á svæðinu. Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir í samtalið við fréttastofu að sú vinna standi enn og að niðurstaða í hana fáist sennilega með kvöldinu eða í fyrramálið. Áður en nýjar sprungur opnuðust ofan Meradala í gær var stefnt að því að björgunarsveitir dragi saman seglin við vöktun og gæslu við gosstöðvarnar. Ekki hefur verið ákveðið með hvaða hætti gæslu verður háttað á næstunni. 

Fyrir þá sem hyggjast leggja á gosstöðvarnar er rétt að líta til veðurs áður en lagt er af stað. Á morgun er spáð nokkrum kulda um landið. Í kvöld og nótt fer að snjóa um landið vestanvert og víða um land í fyrramálið. Hvessir síðdegis á morgun, hvassviðri á Vestfjörðum með éljum og skafrenningi, en úrkomuminna og hægari vindur annars staðar. Frost um mest allt land, kaldast í innsveitum norðaustanlands.