„Ömmur mínar þögðu og þess vegna þjáist ég í dag“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ömmur mínar þögðu og þess vegna þjáist ég í dag“

06.04.2021 - 17:20

Höfundar

Najmo Cumar Fiyasko var sextán ára þegar hún kom til Íslands ein síns liðs frá Sómalíu eftir háskalegt ferðalag. Hún berst fyrir réttindum sómalskra kvenna og ungmenna með myndskeiðum sem hún birtir á samfélagsmiðlum og hvetur meðal annars karlmenn til að hlusta á konur og skilja að það sé samfélaginu öllu til heilla að breyta viðhorfi til kynjahlutverka.

Najmo Cumar Fiyasko kom flúði heimaland sitt, Sómalíu, þrettán ára þegar það átti að gefa hana barnunga í hjónaband. Hún kom til Íslands ein síns liðs eftir hættulegt og langt ferðalag þegar hún var einungis sextán ára. Í dag er hún tuttugu og þriggja ára og henni hefur gengið vel að aðlagast íslensku samfélagi. Hún á hér vini og fjölskyldu og gengur menntaveginn.

Hún er mikil baráttukona og að stórum hluta snýst líf hennar líka um að berjast á samfélagsmiðlum fyrir réttindum stúlkna og kvenna í Sómalíu. Hún hefur vakið athygli fyrir myndbönd sem hún gerir, þar sem hún meðal annars hvetur ungt í heimalandi sínu til þess að mennta sig. Najmo Cumar Fiyasko segir sögu sína í þættinum Okkar á milli með Sigmari Guðmundssyni í kvöld.

„Ömmur mínar þögðu“

Hún leggur mikla áherslu á það í sinni baráttu að gagnrýna menninguna og söguna frekar en að egna konum á móti körlum og öfugt. Þá sé nauðsynlegt konur láti í sér heyra í auknum mæli. „Ég áttaði mig á einu varðandi sögur og það er að þegar konur segja frá, þá hefur það þau áhrif að önnur kona talar líka og segir sína sögu.“

Í samtalinu og sögunum endurspeglist rótgróin vandamál í menningunni. „Ef við tölum ekki um vandamálin og þjáningar okkar sómalskra kvenna þá heldur þjáningin bara áfram. Þögnin gerði ekkert fyrir okkur því ömmur mínar þögðu. Þess vegna þjáist ég í dag.“

Menningin skaðar karla og konur

Sjálf hefur hún mikinn áhuga á að hlýða á og segja valdeflandi sögur en segir ekki síst mikilvægt að karlar leggi við hlustir. „Sögurnar eru líka eina leiðin til að snerta við körlum þannig að þeir sjái afleiðingar þess sem þeir gera og þjáningarnar sem þeir valda okkur,“ segir hún. „Þeir koma svona fram því menning okkar og umhverfi veittu þeim forréttindi til þess og þannig þjáumst við.“ Þeir þurfi að átta sig á hvernig menningin skaði bæði karla og konur og að í sameiningu sé hægt að breyta viðhorfinu.

Þegar einn hópur er ásakaður hlustar enginn

Þegar Najmo fór fyrst að gera myndböndin segist hún hafa skellt skuldinni á karla en svo fór hún að efast um nálgunina. „Þegar ég ásaka og gagnrýni karla stöðugt fara þeir að verja sig. Þú ásakar mig og þá fer ég í vörn og hvað gerist þá? Þá sköpum við tvo þjóðfélagshópa, karla gegn konum og öfugt. Hvorugur hópurinn hlustar á hinn.“

Ekki meðfædd hegðun karla

Í dag nálgast hún málið meðal annars með því að benda körlum á að ábyrgðin sé menningar og uppeldis en ekki hluti af mannlegu eðli. „Þið komið svona fram við mig en það var ekki meðfædd hegðun. Þegar þið komuð í heiminn voruð þið saklausir litlir drengir en menningin kenndi ykkur þetta. Í stað þess að etja þeim saman ættum við að breyta hefðunum saman. Þá getum við lifað saman í einu jafnréttisþjóðfélagi þar sem allir þekkja sinn rétt og sín mörk.“

„Við getum breytt því saman“

Karlmenn séu á þann hátt líka þolendur menningarinnar. „Þessi menning gaf þeim rétt til að gera þetta við okkur. Ef við breytum þessu, ef við bendum á sjálfa menninguna held ég að karlar hlusti núna.“ Þá spyr hún gagnrýnna spurninga eins og: „Þú vilt hafa konuna heima að elda fyrir þig en hvaðan kemur það? Mamma þín lét systur þína gera það fyrir þig, en getum við sagt að mamman hafi hatað dóttur sína og elskað þig? Nei. Mamman hélt að lífið væri bara svona.“

Líkt og menningin hafi kennt mæðrum að þær þyrftu að sjá um heimilið og elda fyrir eiginmanninn hafi sama menning kennt föðurnum að það væri í hans verkahring að stjórna. „Þetta snýst allt um þessar venjur sem eru búnar til. Ef við lítum betur á það getum við breytt því saman.“

Okkar á milli er á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 20.