Miklu færri íbúðir í byggingu á Norðurlandi en í fyrra

06.04.2021 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Tæplega 40% færri íbúðarhús eru í byggingu á Norðurlandi en á sama tíma í fyrra. Lóðaskorti á Akureyri er einkum um að kenna. Sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar vonast til að allt að 300 nýjar lóðir standi til boða í haust.

Mikil fækkun víða um land

Íbúðum í byggingu á landinu hefur fækkað mikið samkvæmt íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins í febrúar og mars. Í þeim sveitarfélögum sem talið er í eru nú 4.610 íbúðir í byggingu. Þeim hefur fækkað um rúmlega 1.100 frá talningunni í fyrra. Á höfuðborgarsvæðinu er fækkunin 21% og hefur ekki mælst meiri frá því að mælingar hófust árið 2010. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er töluvert minni fækkun eða um um átta prósent en á norðurlandi er nú byggt um 37% minna en í fyrra. Í skýrslunni segir að þar muni mest um lóðaskort á Akureyri.

Ekki margar lóðir lausar í dag

Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar, segir að lóðaframboð verði aukið á næstunni. „Akkúrat í dag eru ekki margar lóðir lausar til úthlutunar. Hérna inni á Akureyri erum við bara með níu einbýlishúsalóðir og eina raðhúsalóð sem er laus eins og staðan er í dag en við erum nýlega búin að samþykkja deiliskipulag í Holtahverfi þar sem er gert ráð fyrir allt að 300 íbúðum sem koma á lóðum sem verða lausar vonandi í haust."

Verktakar ósáttir

Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri SS Byggis, sem er einn stærsti verktakinn í bænum, segist í samtali við Fréttablaðið í morgun aldrei hafa séð viðlíka ástand á þeim fjórum áratugum sem fyrirtækið hafi verið til. Hann sakar bæjaryfirvöld um seinagang. 

„Þessi verktaki, ef hann er ekki með lóð og hefur áhuga á að byggja þá er það náttúrlega ekki gott en skipulagsmál taka tíma."