Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Mér fannst þetta mjög súrrealískt augnablik“

Mynd: Eydís Helena Evensen / Aðsend

„Mér fannst þetta mjög súrrealískt augnablik“

06.04.2021 - 13:25

Höfundar

Þórður Ingi Jónsson pistlahöfundur Lestarinnar ræðir við Eydísi Evensen, píanóleikara og tónskáld, sem er upprennandi stjarna í heimi samtímaklassíkur. Bylur nefnist hennar fyrsta plata sem kemur út á næstunni.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Eydís Helena Evensen, píanóleikari og tónskáld, er sannkallað nýstirni í heimi samtímaklassíkur á Íslandi og reyndar víða um lönd. Hún hefur gefið út þónokkur lög og tónlistarmyndbönd undanfarið til að kynna fyrstu útgáfu sína, athyglisverða plötu sem nefnist Bylur og kemur út á næstunni hjá sjálfum útgáfurisanum Sony. Hér er um að ræða nýja plötuútgáfu sem Sony tileinkar sérstaklega nútímaklassík, XXIM Records.

Við heimsóttum Eydísi í Vesturbæ Reykjavíkur og byrjuðum á að spyrja hana út í lag hennar sem kom út fyrir skemmstu og skartar söngkonunni GDRN.

„Þetta lag heitir Midnight Moon og ég fékk í lið með mér Guðrúnu Eyfjörð eða GDRN. Þetta byrjaði sem íslenskt ljóðverk sem ég samdi tónverkið undir við og þýddi síðan á ensku.“

Hvaðan kom nafnið Bylur? „Ég myndi segja að mikill innblástur í kringum hlutina hafi verið frá íslenskri veðráttu og íslenskri náttúru. Bylur tengi ég mjög sterkt við að alast upp á norðurhluta Íslands, á stað sem heitir Blönduós, og hvernig veðráttan þar var, hvernig það gat breyst úr fallegum sólríkum degi yfir í mjög stormasamt ástand, sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég samdi mitt fyrsta verk Vetur genginn í garð.

Eydís var „uppgötvuð“ á fyrstu tónleikum hennar á Iceland Airwaves árið 2018. „Þetta var í Iðnó og beint eftir tónleikana fór ég baksviðs og reyndi að ná mér aðeins niður, ég var mjög spennt og þakklát að fá að spila í fyrsta sinn. Þar kemur að mér manneskja sem heitir Dirk Lange, sem var á þeim tíma fulltrúi hjá Sony Masterworks og hann gaf mér nafnspjaldið sitt. Þaðan byrjaði boltinn að rúlla, sem leiddi að samningi. Ég er ótrúlega þakklát að fá að vera partur af svona frábæru teymi.“

„Ég var eiginlega smá „mind blown“, ótrúlega spennt og þetta kom mér rosalega á óvart. Ég hélt því svolítið svona fast að mér. Mér fannst þetta mjög súrrealískt augnablik. Ég labbaði út með smá skjálfandi hönd að reyna að fá mér sopa af bjór, labbaði til fjölskyldunnar minnar og vina og sagði: „Ég verð að segja ykkur svolítið.“ Þannig við löbbuðum út og þetta var bara eins og í kvikmynd, norðurljósin byrjuðu hjá Tjörninni beint fyrir aftan Iðnó. Þetta var alveg rosalegt augnablik!“

„Mér finnst áhugavert að tónlistin eigi heima í þessum póst-klassíska heimi. Mér finnst áhugavert að fá að skapa þennan sjónræna heim í kringum plötuna og í kringum alla singúlana sem ég hef gefið út. Ég hef til dæmis verið að vinna með Önnu Maggý og Einari Egilssyni. Það er virkilega það sem hefur verið gaman að fókusa á. En svo með Brotin, verkið sem kom út með Önnu Maggý, þá eru kannski ekki margir listamenn í þessum heimi sem eru í myndbandinu sjálfu og vilja virkilega setja sig í þá stöðu að vera partur af því á þann hátt. Mér fannst það mjög áhugavert að fá að gera það.“

Platan er framleidd af Valgeiri Sigurðssyni, tónlistarmanni og upptökustjóra sem rekur Greenhouse Studios. „Nokkur verk eru tekin upp af Francesco Fabris. Hljóðfæraleikarar er fólk sem ég var með í MH og í kórnum, Guðbjartur Hákonarson, Sólveig Vaka, Pétur, Hrafnhildur Marta, Snorri Sigurðar á trompet, Valgeir Guðmunds á básúnu og Guðrún Eyfjörð að syngja, ásamt Birgi Steini kontrabassaleikara. Ég er líka ótrúlega þakklát að fá að taka upp plötu í faraldrinum, ég kom beint frá New York en það eru ekki margir staðir í heiminum sem leyfa það einmitt núna. Þannig ég er virkilega þakklát fyrir þessa tímasetningu og fyrir að fá að gefa út tónlist núna í fyrsta sinn.“

Hvernig sér Eydís senuna af íslenskri og alþjóðlegri samtímaklassík? „Mér finnst þetta vera tónlist sem hafi ákveðna eiginleika af hefðbundinni klassískri tónlist sem er svo samtvinnuð með nýmóðins áhrifum. Mér finnst það hafa þróast mikið frá Philip Glass, og hvernig hans tónlist hefur verið í ákveðnu endurtekningarflæði. Mér finnst það vera sterkt einkenni fyrir nýklassíska tónlist í dag.“

„Mér finnst íslenska senan byrjuð að vera meira og meira áberandi. Síðastliðin þrjú ár sérstaklega, mér finnst frábært að segja hvað eru mikið af ungum og upprennandi tónskáldum að stíga fram í senunni. Mér finnst yndislegt að fá að vera partur af því.“