Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lokað við eldstöðvarnar í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Björgunarsveitin Þorbjörn
Leiðin að eldstöðvunum í Geldingadölum og Meradölum er lokuð í dag vegna mengunarhættu. Hægviðri verður á þessum slóðum í dag og því er gasmengun mest í grennd við gosstöðvarnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum. Viðbragðsaðilar funduðu um stöðuna í morgun og ekki er, enn sem komið er, talið öruggt að opna fyrir umferð að gosstöðvunum. Endurskipuleggja á starf viðbragðsaðila með hliðsjón af þeim breyttu aðstæðum sem orðnar eru eftir að nýjar sprungur opnuðust í gær.

Spáð er hægri breytilegri átt og léttskýjuðu. Vindur verður að jafnaði undir 5 m/s á gosstöðvunum og gasmengun gæti því verið að mestu leyti í næsta nágrenni upptakanna.
Í nótt fer vindur vaxandi af suðaustri, 8-13 metrar. Þykknar upp og fer að snjóa seinni part nætur. Þá er viðbúið að gas finnist í Vogum á Vatnsleysuströnd og mögulega í Reykjanesbæ en loftblöndun ætti að vera góð og gildi því ekki mjög há. Heldur hvassara verður um tíma fyrri partinn á morgun en svo lægir mikið síðdegis með skúrum eða slydduéljum. Annað kvöld gengur svo í norðaustan 8-13 metra og þá má gera ráð fyrir að gasið gæti fundið sér leið til Grindavíkur.