Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lítið en afar stöðugt rennsli úr nýju sprungunni

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Niðurstöður úr greiningu loftmynda benda til þess að hraunrennsli sé nú óverulegt í Geldingadölum en að rennsli frá nýju sprungunni nemi 4 til 5 rúmmetrum á sekúndu.

Hraunrennslið er lítið í samanburði við önnur gos en afar stöðugt. Ekki er hægt að segja til um hve lengi gosið getur staðið en þróun hraunrennslis mun gefa vísbendingar þegar fram í sækir. 

Rennslið í Geldingadölum er um þriðjungur þess sem kom að meðaltali kom upp fyrstu tíu dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, sem var þó lítið gos. Þá nemur það aðeins 2% af því sem var í Holuhrauni fyrstu vikurnar og svipað og var að meðaltali í Surtsey frá aprílmánuði 1964 til gosloka í júní 1967.

Þetta kemur fram á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Í dag voru teknar loftmyndir úr flugvél Garðaflugs með myndavél Náttúrufræðistofnunar og unnin eftir þeim landlíkön af hraununum í Geldingadölum og Meradölum.

Samanlagt rennsli á báðum stöðum er metið 5 til 6 rúmmetrar á sekúndu. Aukningin sem fram kom í gær er því að mestu gengin til baka og hraunrennsli svipað og var dagana áður en nýja sprungan opnaðist.  

Engar breytingar á efnasamsetningu heildar-bergsýna hafa komið fram til þessa en mælingar gefa til kynna gangurinn dragi kviku úr djúpum kvikugeymi sem líklega liggur nærri mörkum skorpu og möttuls undir Reykjanesskaga.