Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Líkur á að gasmengun beri yfir byggð á Reykjanesskaga

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Í nótt gengur í suðaustan 8 til 13 metra á sekúndu, en eftir hádegi á morgun dregur talsvert úr vindi. Gasmengun berst því til norðurs og norðausturs frá gosstöðvunum, og seint í nótt og á morgun eru líkur á að dragi úr loftgæðum í byggð á norðanverðum Reykjanesskaga.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Seint annað kvöld snýst í vaxandi norðaustanátt og þá gæti mengun borist yfir Grindavík.

 

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum kemur fram að opnað verði aftur fyrir umferð að gosstöðvunum klukkan 6 í fyrramálið, miðvikudaginn 7. apríl.

Lokað verður fyrir alla umferð að gosstöðvunum klukkan sex síðdegis eða fyrr ef nauðsyn krefur. Viðbragðsaðilar hefja rýmingu á svæðinu klukkan tíu annað kvöld.

Þeim sem ætla að fara að gosstöðvunum er ráðlagt að klæða sig eftir veðri. Veðurstofan hefur einnig gefið út ráð fyrir fólk sem hyggst sækja gosstöðvarnar heim. 

 

  • Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mökkurinn leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldgosins með vindinn í bakið.
  • Í hægviðri (undir 5 m/s) getur gas safnast fyrir í dalnum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar.
  • Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan. Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni
  • Forðast skal að taka hunda með sér að gosstöðvunum. Hundar eru útsettari fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.