Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eldur í Svartsengi truflar ekki raforkuframleiðslu

06.04.2021 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: HS Orka
Engum var hætta búin þegar eldur kviknaði í vélarbúnaði í Orkuveri 3 hjá HS Orku í Svartsengi síðdegis í dag. Orkuverið var mannlaust þegar eldurinn kom upp en starfsmenn HS Orku lokuðu svæðinu.

Þeir kölluðu til slökkvlið í Grindavík sem réði niðurlögum eldsins á skömmum tíma. Eldurinn var lítill og einangraður og því lítil hætta á að hann breiddist út.

Í tilkynningu frá HS Orku segir að eldsupptök liggi ekki fyrir en grunur sé uppi um að kenna megi því um að lega hafi brotnað í vélinni.

Hvorki er búist við að eldsvoðinn hafi áhrif á framleiðslu á raforku né framleiðslu heits og kalds vatns en framleiðsla vélar í Orkuveri 3 stöðvast þó meðan unnið er að úrbótum.

Orkuverið þar sem eldurinn kviknaði er ríflega 40 ára en það var tekið í notkun undir lok ársins 1980.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV