Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

DV hættir að koma út á pappír

06.04.2021 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Kristín Jónsdóttir - RÚV
DV ætlar að hætta útgáfu blaðsins á pappírsformi, að minnsta kosti tímabundið. Áhrif heimsfaraldurs á auglýsingasölu og hömlur á útgáfu eru sagðar helstu ástæður þessarar ákvörðunar.

Þetta kemur fram í frétt á vef DV nú rétt fyrir hádegi. Þar segir að aukinn kraftur verði settur í vefmiðilinn dv.is meðan á útgáfuhléinu stendur. 

„Nýjungar á vefnum verða kynntar á næstu vikum. Tobba Marinósdóttir ritstjóri DV, sagði starfi sínu lausu í lok febrúar en starfar áfram hjá Torgi og mun fylgja þessum breytingum úr hlaði og tryggja að aukinn krafur verði settur í DV.is.“ segir í frétt DV.

Einnig kemur fram að greiðsluseðlar til áskrifenda fyrir apríl verði felldir niður. DV hefur verið gefið út allt frá því að blaðið var stofnað árið 1981 þegar Dagblaðið og Vísir voru sameinuð. 

Í lok árs 2019 keypti Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, Frjálsa fjölmiðlun sem áður gaf út DV. Torg heldur einnig úti sjónvarpsstöðinni Hringbraut og aukablaðinu Markaðnum.

Prentmiðlar hér á landi hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár. Á seinustu árum hefur útgefnum blöðum fækkað verulega og útgáfudögum verið fækkað hjá prentmiðlum, þar á meðal dagblöðum. Morgunblaðið færði útgáfu sunnudagsblaðs síns fram á laugardaga, Fréttablaðið hefur fækkað útgáfudögum úr sjö þegar mest var í fimm. Þá var prentaðri útgáfu Mannlífs hætt í fyrra. Fleiri blöð hafa fallið í gleymskunnar dá, svo sem 24 Stundir og Fréttatíminn, sem nú er aðeins vefmiðill. Þessi listi er ekki tæmandi.