Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Boðar opnun ensks samfélags í næstu viku

06.04.2021 - 04:25
epa09116715 A man passes a sign advertising the opening of a barbers on April 12 in London, Britain, 05 April 2021. Britain's Prime Minister Boris Johnson has announced that  everyone in England is to be given access to two rapid coronavirus tests a week from Friday 09 April 2021. is also expected to to sign off the next stage of easing the lockdown from 12 April 2012.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði á fréttamannafundi í gærkvöld að mjög verði dregið úr hvers kyns hömlum og lokunum vegna COVID-19 í Englandi, frá og með mánudeginum næsta. Verslanir, hársnyrtistofur og líkamsræktarstöðvar landsins geti þá hafið starfsemi á ný og fólk sest að mat sínum og drykk á útiveitingastöðum.

„Mánudaginn 12. apríl ætla ég sjálfur á krá, þar sem ég mun - af ítrustu varúð en þó með óafturkræfum hætti - bera ölkollu að vörum mínum," sagði forsætisráðherrann.

Boðaðar tilslakanir í Englandi má rekja til þess að smitum, sjúkrahúsinnlögnum og dauðsföllum vegna COVID-19 hefur farið mjög fækkandi þar að undanförnu, þar sem stór hluti bresku þjóðarinnar hefur verið bólusettur, ýmist að hálfu eða öllu leyti.

Varar við andvaraleysi

Johnson varaði fólk þó við því að sýna andvaraleysi. „Við höfum séð bylgjur farsóttarinnar skella á öðrum löndum og við vitum hvað þær geta haft í för með sér. Við vitum ekki enn, hversu trausta vörn bólusetningin veitir þegar smitunum fer að fjölga hér á ný, sem ég er hræddur um að þau geri," sagði forsætisráðherrann.

Veðja á skimun með hraðprófum heimavið og á vinnustöðum 

Lykilatriði í því að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur er sú fyrirætlan stjórnvalda að gera fólki kleift að taka hrað-veirupróf allt að tvisvar í viku. Frá og með föstudeginum geta allir fullorðnir Englendingar pantað ókeypis heimapróf við COVID-19, sem hægt verður að fá sent heim að dyrum eða sækja í apótek eða aðra hentuga staði.

Þá hafa um 100.000 fyrirtæki lýst sig reiðubúin að bjóða starfsfólki sínu upp á slík próf á vinnutíma.