Beiðni um lögbann á Seðlabankann hafnað

06.04.2021 - 14:49
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Héraðsdómur Reykjaness hafnaði fyrir páska kröfu slóvakísks tryggingafélags um að lögbann yrði sett á birtingu greinar á vef Seðlabanka Íslands. Þar sagði að tímabundið bann hafi verið sett á sölu nýrra trygginga félagsins uns ákveðin skilyrði hefðu verið uppfyllt. Dómari sagði að skrif Seðlabankans hefðu ekki verið alls kostar nákvæm en að ákvörðun slóvakíska seðlabankans, sem Seðlabanki Íslands greindi frá, hefði borið skýrlega með sér að vafi léki á lögmæti viðskiptahátta fyrirtækisins.

Lögmaður slóvakíska tryggingafélagsins Novis krafðist þess fyrir dómi í desember að lögbann yrði sett á birtingu umfjöllunar Seðlabankans á vef bankans. Tryggingafélagið hafði leitað til sýslumanns í október sem hafnaði lögbannsbeiðni og vildi félagið fá þeirri niðurstöðu snúið fyrir rétti.

Lögbannsbeiðnin sneri að skrifum á vef Seðlabankans sem byggðu á ákvörðunum Seðlabanka Slóvakíu um tryggingafélagið. Samkvæmt henni mátti Novis ekki gera nýja samninga um vátryggingar ef fjárfest iðgjöld væru lægri en endurkaupsvirði samninganna, að því er fram kemur í úrskurðinum. Auk þess var fyrirtækið skyldað til að upplýsa seðlabankann slóvakíska mánaðarlega um inneignir tryggingareikninga viðskiptavina, endurkaupsvirði samninga og verðmæti eigin eigna. Loks var tryggingafélaginu gert skylt að fjárfesta iðgjöldum þegar gerðra samninga í samræmi við skilmála samninganna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson

Sem fyrr segir tekur dómari fram að tilkynning Seðlabanka Íslands hafi ekki verið alls kostar nákvæm. „Á  hinn  bóginn  verður  ekki  framhjá  því  litið  að ákvörðun Seðlabanka  Slóvakíu  bar  skýrlega  með  sér  að  vafi  var uppi  um hvort  viðskiptahættir félagsins samrýmdust því sem lög og samningar áskildu. Er vandséð af hvaða ástæðum öðrum stofnunin taldi sig þurfa að grípa til slíkrar ákvörðunar gagnvart sóknaraðila. Þá liggur  fyrir  að stofnunin birti  tilkynningu  25.  september  2020  þar  sem  fram  kom  að ákvörðunin  væri  á  því  reist  að  grunsemdir  væru  um  að  sóknaraðili  hefði ekki fjárfest iðgjöldum  í  samræmi  við  gerða samninga  og að virði fjárfestinga  dygði  ekki  fyrir endurkaupsvirði  samninganna  svo  sem áskilið  væri.  Liggur  og  fyrir  að  stofnunin  mun síðan  hafa  tekið  nýja ákvörðun  5.  nóvember  2020  um  nánar  tilgreindar  takmarkanir á ráðstöfun eigna sóknaraðila, en ekki verður annað ráðið en að sú ákvörðun hafi m.a. verið byggð á sömu atvikum og eldri ákvörðunin.“

Dómari við Héraðsdóm Reykjaness sagði að Seðlabankinn hefði ekki brotið gegn lögvörðum hagsmunum Novis með birtingu tilkynningarinnar né væri brotið gegn hagsmunum fyrirtækisins með áframhaldandi birtingu. Því væru ekki slíkir hagsmunir undir að þeir réttlættu að lögbann yrði sett á birtinguna og vísaði dómari til þess að tryggingafélagið gæti fengið úrlausn sinna mála með öðrum hætti fyrir dómstólum.

Fram kom í frétt RÚV í desember að Novis hefði selt yfir fimm þúsund Íslendingum tryggingar frá árinu 2018.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV