Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Aukning í frakt- og innanlandsflugi Icelandair

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Fraktflutningar Icelandair jukust á milli ára í marsmánuði í ár en heildarfjöldi farþega í millilandaflugi hjá var um 7.800 í mars og dróst saman um 94% á milli ára. Þetta er meðal þess sem fram kemur í flutningatölum fyrir mars sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.

Í tilkynningu frá félaginu segir að sætanýting þess hafi verið 27,7% í síðasta mánuði samanborið við 61,9% í mars árið 2020. Félagið hefur nýtt Boeing 767 þotur á ákveðnum leiðum undanfarna mánuði í stað Boeing 757. Tilgangurinn er að auka fraktrými um borð sem á móti leiði til lakari sætanýtingar.

Flutningastarfsemi Icelandair jókst um 36% í mars og hefur aukist um 12 af hundraði milli ára það sem af árinu. 

Farþegafjöldinn í millilandaflugi Icelandair endurspeglar stöðu kórónuveirufaraldursins á mörkuðum félagsins og þær ferðatakmarkanir sem í gildi eru. Alls flutti félagið um 4.300 farþega til landsins í mars og 3.300 frá landinu. Sætaframboð dróst saman um 89% í millilandaflugi milli ára. 

Farþegum í innanlandsflugi fjölgaði um 52% á sama tíma og alls flugu um 16 þúsund með félaginu í mars. Framboð í innanlandsflugi jókst um 36% en Grænlandsflug Icelandair telst nú til millilandaflugs frá því að samþættingu þess við Air Iceland Connect lauk nú í mars.