Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Allt klárt fyrir kennslu í Korpuskóla

06.04.2021 - 21:45
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Búið er að gera við rakaskemmdir í Korpuskóla í Grafarvogi í Reykjavík. Nemendur úr Fossvogsskóla hefja þar nám á morgun. Upplýsingafulltrúi borgarinnar segir að finni börn fyrir myglueinkennum í Korpuskóla þurfi þau hugsanlega að skipta um skóla. 

Eftir þrálát mygluvandamál, árum saman, var ákveðið að nemendur Fossvogsskóla fengju inni í Korpuskóla í Grafarvogi, skólahúsið hafði staðið autt frá í haust eftir sameiningu skóla í hverfinu. Skömmu eftir að kennsla hófst í Korpuskóla leiddi úttekt verkfræðistofunnar Eflu í ljós að þar var líka myglusveppur.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Verið að leggja lokahönd á alþrif í dag.

Húsnæðið sagt heilnæmt og gott

Reykjavíkurborg nýtti páskana til viðgerða og í dag var allt þrifið hátt og lágt. „Eftir því sem okkur skilst á sérfræðingum þá er húsnæðið bara heilnæmt og gott,“ segir Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla. Skemmdirnar hafi verið minniháttar miðað við Fossvogsskóla og myglan staðbundnari. Allir hafi lagst á eitt við að koma húsnæðinu í stand. „Það er bara gott hvað það hefur gengið ótrúlega vel að vinna þetta. Það eru hlutir inni sem ekki verða kláraðir en það er búið að ganga þannig frá þeim að þeir eiga ekki að trufla neinn,“ Ingibjörg er þarna að tala um íþróttasalinn, skólinn mun ekki nota hann. Viðgerðakostnaður liggur ekki fyrir að svo stöddu. 

„Við erum vön, við höfum gert þetta áður“

Foreldrar voru upplýstir um stöðu mála á fjarfundi í dag og á morgun mæta á fjórða hundrað nemenda og tugir starfsmanna í skólann, þau fara með rútum úr Fossvoginum. En hvernig varð Ingibjörgu við þegar hún fékk þær fréttir að það væri líka mygla í Korpuskóla? „Þetta er bara verkefni sem maður þarf að takast á við, af hverju ekki við eins og einhver annar, við höfum gert þetta áður þannig að við erum vön.“

Framtíð Fossvogsskóla óljós

Ekki liggur fyrir hvernig brugðist verður við ef einhverjir nemendur finna fyrir myglueinkennum í Korpuskóla. Upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, segir ljóst að ekki sé úr mörgum skólabyggingum að velja, hugsanlega þyrftu þeir nemendur því hreinlega að skipta um skóla. Framtíð skólabygginganna í Fossvoginum er enn óljós en áfram verður unnið að lagfæringum til að koma í veg fyrir hugsanlegan mygluvöxt. Efla hefur verið fengin til að taka út húsnæðið og Heilbrigðiseftirlitið úrskurðar um heilnæmi þess.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV