Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Villa á sér heimildir til að komast að gosstöðvunum

05.04.2021 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Talið er að um fimm hundruð manns hafi verið við gosstöðvarnar eða á leið að þeim eða frá þeim þegar fyrri sprungan myndaðist á hádegi og byrjað var að rýma svæðið. Einn og einn lætur sér þó ekki segjast og reynir að fara að gosstöðvunum. Þar verður lokað þar til lögregla tilkynnir um annað, að sögn Sigurðar Bergmann, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni og Suðurnesjum og vettvangsstjóra. 

Sigurður segir að vel hafi gengið að rýma gosstöðvarnar. Það hafi þó verið börn meðal göngufólks og því hafi rýmingin gengið rólega. „Síðan vorum við að fást við svona einn og einn sem hafði ílengst og sloppið framhjá okkar fólki. Við erum að reka niður síðustu tvo vonandi í þessum töluðu orðum,“ sagði Sigurður um klukkan 15:30. 

Lögregla hleypir fólki, sem á erindi, um Suðurstrandarveg þó að hann sé lokaður. „Fólk hefur líka verið að villa á sér heimildir og svo rennir það bara inn á bílastæðin og hefur göngu upp á fjall, þó að það viti að það sé lokað,“ segir Sigurður, en bætir við að það gangi þó vel að rýma. Enn séu nokkir að koma að og ætli í göngu en að heilt yfir gangi vel að rýma, það sé þó alltaf einn og einn sem láti á það reyna að komast nær. 

Lokað verður fyrir aðgang að gosstöðvunum þar til lögreglustjórinn á Suðurnesjum tilkynnir um annað. Tvær sprungur mynduðust við gosstöðvarnar í dag og rennur hraunið í Meradali.