Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Metfjöldi utankjörfundaratkvæða á Grænlandi

05.04.2021 - 04:54
Godthåbhallen í Nuuk að utan, kjörstaður í landsþingskosningum, grænlenski fáninn
Kjörstaður í Nuuk í landsþingskosningunum 2018 Mynd: Danmarks Radio - DR
Í Nuuk, höfuðstað Grænlands og sveitarfélaginu Sermersooq, sem Nuuk tilheyrir, hafa rúmlega tvöfalt fleiri greitt atkvæði utan kjörfundar fyrir þing- og sveitarstjórnarkosningarnar á þriðjudag en áður hefur þekkst. Yfirvöld í Sermersooq höfðu þó vonast eftir enn fleiri utankjörfundaratkvæðum.

Þetta kemur fram á vef grænlenska ríkisútvarpsins, KNR. Frestur til að greiða atkvæði utan kjörfundar rann út á miðvikudag. Alls nýttu 1.554 kjósendur þennan möguleika. Lars Damkjær, upplýsingafulltrúi Sermersooq, segir í samtali við KNR að þetta séu á bilinu tvöfalt til þrefalt fleiri utankjörfundaratkvæði en venjulega.

Bæjaryfirvöld hvöttu fólk til að nýta sér möguleikann til að kjósa snemma, og forðast þannig örtröð á kjördag til að minnka enn þær litlu líkur sem eru á því að smitast af COVID-19 á Grænlandi, þar sem ekkert smit hefur greinst í um það bil mánuð og aðeins 31 smit frá upphafi. 

„Við hefðum að sjálfsögðu gjarnan viljað fá enn fleiri [utankjörfundaratkvæði], því það hefði auðveldað framkvæmd kosninganna á þriðjudag enn frekar,“ sagði Damkjær, en hrósaði um leið þeim sem höfðu fyrir því að kjósa snemma og póstleggja atkvæði sín í tæka tíð. 

Stjórnarandstöðu spáð sigri

Kosið verður til þings, sveitarstjórna og sóknarnefnda á Grænlandi á þriðjudag. Stjórnarandstöðuflokknum Inuit Ataqatigiit, eða IA, sem er lengst til vinstri í grænlænskum stjórnmálum, er spáð góðu gengi í þingkosningunum en ekki blæs jafnbyrlega fyrir jafnaðarmönnum í Siumut, sem haldið hafa um landstjórnartaumana síðustu átta ár.

Það var einmitt Inuit Ataqatiigit, undir forystu Kuupiks Kleist, sem fór fyrir landstjórninni á árunum 2009 - 2013. Var það fyrsta og eina skiptið til þessa, sem annar flokkur en Siumut var í því hlutverki frá því að Grænlendingar fengu heimastjórn 1978. 

KJósendur eru um það bil 41.000 talsins. Þeir munu kjósa sér 31 þingmann úr hópi 189 frambjóðenda. Grænland skiptist í fimm sveitarfélög og eru  frambjóðendur til sveitarstjórna samtals 254.