Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

LG hættir snjallsímaframleiðslu vegna milljarða taps

epa07820383 Double screens of LG mobile devices are displayed at the LG stand in the International Consumer Electronics Fair (Internationale Funkausstellung Berlin, IFA) ahead of its official opening in Berlin, Germany, 05 September 2019. The IFA is the world's leading trade show for consumer electronics and home appliances and runs from 06 to 11 September.  EPA-EFE/FELIPE TRUEBA
 Mynd: epa
Suður-kóreski rafeindarisinn LG Electronics hættir framleiðslu á snjallsímum hinn 31. júlí næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í morgun. Tap hefur verið á snjallsímaframleiðslu fyrirtækisins samfellt síðan á öðrum ársfjórðungi 2015.

LG er næst-stærsti raf- og rafeindatækjaframleiðandi Suður-Kóreu, á eftir Samsung, og hefur verið með um tíu prósenta hlutdeild á bandaríska snjallsímamarkaðnum, þar sem einungis Samsung og Apple selja fleiri tæki.

LG stækkaði hratt á fyrstu árum 21. aldarinnar og gat sér orð sem frumkvöðull í þróun Android-stýrikerfisins, meðal annars í samstarfi við Google upp úr 2010. Það var í hópi tíu stærstu snjallsímaframleiðenda heims um árabil en með aukinni samkeppni, ekki síst frá Huawei og öðrum kínverskum rafeindatækjaframleiðendum, tók að halla undan fæti og hefur hlutur LG í snjallsímasölu á heimsvísu verið undir þremur prósentum síðustu árin.

Tap hefur verið á snjallsímaframleiðslu fyrirtækisins allar götur síðan 2015 og nemur uppsafnað tap á henni nú jafnvirði um 560 milljarða króna. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV