Lettnesk páskahátíð í Vogum

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Lettnesk páskahátíð í Vogum

05.04.2021 - 07:30

Höfundar

„Ég myndi segja að páskarnir séu þriðja stærsta hátíðin í Lettlandi á eftir jónsmessu og jólum,“ segir Lauma Gulbe frá Lettneska skólanum í Reykjavík. Hún bauð Landanum að upplifa lettneska páskahátíð á heimili sínu í Vogum á Vatnsleysuströnd. 

„Það eru margar hefðir og flestar þeirra tengjast sólinni, eggjum og leikjum.“ Krakkarnir mála egg og lita með laukshýði og fleiri náttúrulegum hráefnum og eggin sjálf eru svo borðuð svo ekkert fari til spillis. Mesta spennan er þegar eggin sem vafin eru í klúta eru soðin og hægt er að fletta af og sjá hvernig litunin hefur tekist. Fullorðna fólkið felur svo eggin úti og krakkarnir fara með körfur og leita og leika sér svo með eggin í hinum ýmsu leikjum. Að róla er líka partur af lettnesku páskahaldi. 

Auk rétta úr eggjum eru baunaréttir gjarnan borðaðir á páskum og sætabrauð úr mjólkurvörum sem líkjast kotasælu.