Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kolbrún Halldórsdóttir vill snúa aftur á þing

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kolbrún Halldórsdóttir fyrrverandi umhverfisráðherra gefur kost á sér í annað sæti á lista í forvali Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi, eða Kraganum svokallaða. Forvalið verður haldið rafrænt dagana 15. til 17. apríl næstkomandi.

Kolbrún sat á þingi frá 1999 til 2009 og var varaþingmaður fyrir VG árið 2010.  

„Já, ég hef ákveðið að gefa kost á mér til starfa í stjórnmálum á ný. Í dag rennur út frestur til að skrá sig til liðs við VG í Kraganum, og taka þátt í vali á lista flokksins þar,“ segir Kolbrún á Facebook-síðu sinni.  

Suðvesturkjördæmi er fjölmennasta kjördæmi landsins sem hefur tólf sæti á Alþingi, þar af tvö jöfnunarsæti. Í kjördæminu eru öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins utan Reykjavíkur sem áður voru hluti af Reykjaneskjördæmi.

Kjördæmið var búið til með nýrri kjördæmaskipan árið 2000, en fyrst var kosið samkvæmt þeirri skipan í Alþingiskosningum 2003. Viðurnefnið Kraginn hefur Suðuvestukjördæmi hlotið vegna þess hvernig það umlykur Reykjavík. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Ólafur Þór Gunnarsson alþingismaður sækjast eftir því að fara fyrir lista flokksins í Alþingiskosningunum í haust. Una Hildardóttir varaþingmaður gefur kost á sér í 1. til 2. sæti listans.