Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Indverjar herða á bólusetningu vegna fjölgunar smita

05.04.2021 - 03:48
epa09110221 A nurse prepares a shot of COVID-19 vaccine inside a vaccination centre at Shatabdi Hospital in Mumbai, India, 01 April 2021. Phase three of the COVID-19 vaccination has started in India on 01 April for people aged 45 and above.  EPA-EFE/DIVYAKANT SOLANKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kórónaveirusmitum fer nú aftur fjölgandi á Indlandi, þar sem yfir 100.000 greindust með COVID-19 í gær, fleiri en nokkru sinni á einum sólarhring. Yfirvöld brugðust við þessari nýju bylgju faraldursins með því að herða á bólusetningaráætlun sinni svo um munar.

81,466 ný tilfelli greindust þar í fyrradag og höfðu þá ekki verið fleiri á einum sólarhring síðan 2. október. Í gær greindust svo 103.558 með COVID-19 á Indlandi, fleiri en nokkru sinni fyrr á einum sólarhring. Þar með er Indland orðið annað landið í heiminum, ásamt Bandaríkjunum, þar sem yfir 100.000 tilfelli hafa greinst á einum degi.

478 dóu úr COVID-19 á Indlandi í gær svo vitað sé. Staðfest dauðsföll af völdum sjúkdómsins eru þá orðin rúmlega 165.000 þar í landi og er dánartíðni af völdum sjúkdómsins óvíða lægri. 

Bólusetning hófst í janúar og stóð þá einungis framlínustarfsfólki, öldruðum og fólki með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma til boða. Á skírdag tilkynntu heilbrigðisyfirvöld að allir Indverjar, 45 ára og eldri,  gætu nú farið í bólusetningu. Stefnt er að því að bólusetja minnst 400 milljónir Indverja á þessu ári.

Tvö bóluefni eru helst notuð þar eystra, hið indverska Covaxin og bóluefni AstraZeneca, sem framleitt er í verksmiðjum fyrirtækisins á Indlandi. 

Fréttin var uppfærð kl. 06.40 í samræmi við nýjustu tölur um smit og dauðsföll. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV