Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hraunáin rennur hratt í Meradali

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Tvær nýjar gossprungur, um eitt til tvö hundruð metrar að lengd, opnuðust í hádeginu í dag um 700 metra norðaustur af gígunum í Geldingadölum. Gossvæðið var rýmt án tafar en þá voru þar nokkur hundruð manns. Ólíklegt þykir að svæðið verði opnað aftur á morgun.

„Það er nú bara þannig að maður á ekki að láta neitt koma sér á óvart og þetta segir okkur að það er full ástæða fyrir björgunarsveitir og okkur að vera með þennan viðbúnað. Jörðin er að minna á sig,“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands. 

Kristín segir að það sé nánast ómögulegt að komast að þessu svæði án þess að vera í hættu og þótt hraunið renni í mjóum straumi núna geti það breyst og hætta er á að fólk sem freistast til að skoða gosið geti orðið innlyksa. „Þetta er orðið hættulegra svæði en það var.“ 

Nú er eldgos á tveimur stöðum, í Geldingadölum og á hæð norðanaustan við dalina. „Þar hefur myndast mjó hrauná sem rennur mjög hratt niður í Meradali,“ segir Kristín. Álíka mikið hraun kemur upp úr sprungunum og gerði áður í Geldingadölum, liklega á milli fimm og sex rúmmetrar á sekúndu, áfram þunnfljótandi og heitt hraun sem renni hratt. Heyrst hafi að rennslið sé um tíu metrar á sekúndu sem sé mjög hratt. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björn Oddsson - Almannavarnir

 

Hún segir að þau hafi verið búin að skoða og kortleggja stóran hluta af þeim sprungum sem nú eru að gjósa og eru að velta vöngum yfir því af hverju það komi kvika upp úr þeim núna en ekki þegar fór að gjósa í Geldingadölum. „Við skiljum ekki almennilega hvað gerði það að verkum.“

Hún segir fyrirboðana hafa verið nánast enga á mælitækjum Veðurstofunnar í hádeginu í dag, einhverjir hafi talað um meiri gasmengun „en svo bara gerist þetta.“ 

Búið var að kortleggja sprungunar en hvers vegna það komi hraun upp úr þeim akkúrat núna sé erfitt að segja til um. „En þetta sýnir okkur það að við megum ekki sofna á verðinum og við þurfum öll að fylgjast vel með og vera vakandi.“ Mjög mikilvægt sé að fólk á svæðinu fari varlega og þá segir hún að það sé ástæða fyrir því að öryggið hafi verið sett á oddinn varðandi vöktun á svæðinu.