Í ár á að kjósa í 11 sveitarfélögum á þremur svæðum um sameiningu við nágrannasveitarfélög, eins og Spegillinn hefur fjallað um að undanförnu. Að auki eru 8 sveitarfélög skemmra á veg komin í sameiningarpælingum.
Á Norðvesturlandi á að greiða 5. júní atkvæði í Blöndósbæ, Húnavatnshreppi, Skagabyggð og Sveitarfélaginu Skagaströnd. Það sameiningarverkefni er kallað Húnvetningur.
Á Norðurlandi eystra á að kjósa um sameiningu tveggja sveitarfélaga, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Verkefnið gengur undir heitinu Þingeyingur. Kosið verður í sveitarfélögunum á Norðurlandi 5. júní.
Á Suðurlandi er stefnt að atkvæðagreiðslu samhliða þingkosningum 25. september. Þar greiða íbúar í Ásahreppi, Rangárþingi ytra, Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi atkvæði um sameiningu í 5300 manna sveitarfélag. Sameiningarverkefnið er kallað Sveitarfélagið Suðurland. Þar á jafnvel að taka upp heimastjórnarfyrirkomulag eins og í Múlaþingi.