Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fólki frjálst að ljúka sóttkví utan sóttkvíarhótela

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Þeim sem dvelja á sóttkvíarhótelum verður tilkynnt að þeim sé frjálst að ljúka sóttkví annars staðar hafi þeir viðunandi aðstöðu til þess. Umsjónarmaður sóttvarnarhótela segir að nú þurfi að endurmeta stöðuna í ljósi úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni og heilbrigðisráðuneyti vegna úrskurðar héraðsdóms þess efnis að ekki mætti skylda fólk sem kærði þá ráðstöfun að vera gert að dvelja í sóttvarnahúsi eftir komu til landsins.

Sóttvarnayfirvöld biðla þó til gesta að ljúka sóttkví á hótelinu sem sé besta leiðin til að draga úr útbreiðslu COVID-19.

Í framhaldinu mun heilbrigðisráðherra í samráði við sóttvarnalækni skoða hvaða leið verður farin til að lágmarka áhættu á að smit berist inn í landið og greinir frá viðbrögðum á næstu dögum. 

Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður sóttvarnahúsa segir í samtali við fréttastofu að sárafáir hafi sagst ætla að fara, enn sem komið er. Hann viti þó að eitthvað af því fólki sem kærði dvöl sína í sóttvarnahúsi ætli að tygja sig en þó ekki allir. 

Ljóst sé að tíma taki að vinna úr þessari nýju stöðu, næstu klukkutímar og sólarhringur fari í að meta stöðuna. „En sem fyrr hindrum við ekki för neins,“ segir Gylfi Þór.