Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Fólk gæti klárlega verið í hættu“

05.04.2021 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ný sprunga, um 500 metra löng, hefur opnast í Geldingadölum og verið er að rýma svæðið. Sigurður Bergmann, aðalvarðsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum og vettvangsstjóri, segir að fólk kunni að vera í hættu. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru að leggja af stað á vettvang. Vefmyndavél RÚV hefur verið snúið að nýju sprungunni. 

„Það er fólk á göngu þarna uppi og miðað við það sem við sáum á vefmyndavélinni gæti fólk klárlega verið í hættu. Allt okkar viðbragð fer núna í að rýma fjallið og loka aðkomu að því, við erum að vinna að þessu, að koma fólki niður af fjallinu. Svo verður fjallið bara lokað í dag,“ segir Sigurður. Gasmengun kann að aukast vegna nýju sprungunnar. 

VInna að því að ná stjórn á vettvangi

Viðbragðsaðilar eru enn að reyna að ná utan um stöðuna. „Þetta er bara að gerast í þessum töluðu orðum, við þurfum að rýma fjallið, loka og skoða aðstæður, hvort þetta hafi áhrif á framhaldið, það kemur í ljós.“ Fjórir björgunarsveitarmenn voru þegar á vakt við gosstöðvarnar. Sigurður segir að um 50 manns til viðbótar verði sendir á vettvang. 

Þyrlur svipast um eftir fólki

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru að leggja af stað á vettvang, í annarri þeirra verða tveir sérsveitarmenn. Þá hafa þyrluflugmenn sem voru að fljúga með ferðamenn yfir svæðið verið beðnir um að svipast um eftir göngufólki. Sigurður segir að þyrlurnar geti lent og bjargað fólki ef þörf er á. 

Fréttin hefur verið uppfærð

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV