Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Búin að herða eða slaka fimmtán sinnum

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Skólastjórar grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu segjast komnir í góða þjálfun við að herða og slaka á sóttvarnareglum. Nýjar reglur hafi lítil áhrif á daglegt líf nemenda. 

 

Kennarar funda í fyrramálið

Nemendur grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu fá að sofa aðeins út á morgun, bjallan hringir um tíuleytið. Kennararnir mæta fyrr til að funda um nýjar sóttvarnatakmarkanir. Stjórnvöld rifu í handbremsuna í þarsíðustu viku því breska afbrigðið var farið að breiðast út innanlands. Sóttvarnareglur voru stórhertar og grunnskólanemar sendir í páskafrí tveimur dögum fyrr en til stóð. Á morgun hefst skólastarf með takmörkunum. Valdimar Víðisson, skólastjóri Öldutúnsskóla í Hafnarfirði, segir að starfið verði nokkuð eðlilegt. „Fyrst og fremst verða aðgerðirnar hamlandi fyrir starfsmenn, það þarf að hólfa aðeins niður hvernig er með kaffistofur og grímuskylda verður mun almennari innan stofnunarinnar en hvað varðar nemendur þá verður þetta tiltölulega hefðbundið. Þeir geta verið fimmtíu saman í rými en eins og skipulagið er hjá okkur gengur það allt saman mjög vel upp og aldrei fleiri en fimmtíu í rými.“

Skólasund leyft

Undanþága fékkst vegna skólasunds, sem verður samkvæmt stundaskrá á morgun eins og aðrar námsgreinar. Smit komu upp í nokkrum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu fyrir páska, þar af eitt í Öldutúnsskóla. Vegna þess þurftu um 200 manns í sóttkví en enginn úr hópnum reyndist smitaður. 

Voru búin undir harðari takmarkanir

Arndís Steinþórsdóttir, skólastjóri Háteigsskóla í Reykjavík, fagnar því að takmarkanirnar séu ekki meiri. „Við vorum alveg undir það búin til dæmis að krakkarnir mættu ekki hittast á milli hópa þannig að það var ánægjulegt að heyra. Við svona hoppuðum aftur í nóvember.“ 

Helstu breytingar snúa að aukinni grímunotkun starfsmanna og því að foreldrar og aðrir utanaðkomandi eiga helst ekki að koma inn í skólann.

Tíðar breytingar

Valdimar segir grunnskólana vera orðna ansi sjóaða í að bregðast við nýjum reglum, enda hafi þær breyst oft frá í mars í fyrra.  „Mér telst til að þetta sé í   fimmtánda sinn sem við erum ýmist að herða eða slaka.“ 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV