Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þúsundir Breta mótmæltu auknum valdheimildum lögreglu

04.04.2021 - 02:51
epa09113785 Police scuffle with protesters during a 'Kill the Bill' protest in London, Britain, 03 April 2021. Nationwide protests against the Police, Crime, Sentencing and Courts Bill have been ongoing for weeks. Opponents of the bill criticise that it will hand the police greater powers to crack down on protests whereas the Home Office insists the right to protest will remain respected.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir mótmælenda söfnuðust saman í Lundúnum og fjölda annarra borga í Bretlandi á laugardag. Að þessu sinni beindist gagnrýni mótmælenda hvorki að of ströngum né of litlum aðgerðum stjórnvalda vegna kórónaveirufaraldursins, heldur frumvarpi til laga, sem munu veita lögreglu mun víðtækari heimildir til að takmarka og stöðva hvers kyns mótmælafundi og kröfugöngur en nú er raunin.

Nái frumvarpið fram að ganga fær lögregla heimildir til að setja mótmælendum margvísleg mörk, svo sem tíma- og hávaðamörk, sem baráttufólk fyrir hinum ýmsu málstöðum óttast að verði beitt til að berja niður gagnrýni andóf.

Blásið var til mótmæla í tugum borga og bæja undir slagorðinu „Kill the Bill“ eða stoppið frumvarpið, í óskáldlegri þýðingu. Nutu þau stuðnings nokkurra stórra baráttusamtaka á borð við Extinction Rebellion og Black Lives Matter.

Að mestu friðsamleg þrátt fyrir minniháttar stimpingar

Reuters-fréttastofan greinir frá því að mótmælin hafi farið friðsamlega fram víðast hvar, en þó hafi komið til minniháttar árekstra lögreglu og mótmælenda í kjölfar fjölmennustu mótmælasamkomu dagsins, sem var í Lundúnum.

Lögregla sendi mikinn mannskap á vettvang til að binda enda á mótmælin og beindi að eigin sögn kröftum sínum einkum að fámennum hópi mótmælenda sem ekki virti reglur um samskiptafjarlægð. 26 voru handtekin eftir stimpingarnar sem af hlutust og 10 lögreglumenn urðu fyrir minniháttar hnjaski. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV