Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Líkur á stjórnarskiptum í Búlgaríu

04.04.2021 - 23:44
epa09111857 A women passes in front of campaign posters for the coming Parliamentary elections in the town of Dupnicha , Bulgaria 02 April 2021. Bulgaria will hold Parliamentary elections on April 04,2021.  EPA-EFE/VASSIL DONEV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Búlgarski mið-hægri flokkurinn GERB, flokkur hins þaulsætna forsætisráðherra landsins, Boykos Borisovs, fékk um fjórðung atkvæða í búlgörsku þingkosningunum sem haldnar voru í dag, samkvæmt útgönguspám. Það er nokkru minna en flestar skoðanakannanir gerðu ráð fyrir og nær átta prósentustigum minna en í kosningunum 2017, þegar flokkurinn fékk nær þriðjung atkvæða.

Vinstrimenn í stjórnarandstöðu tapa líka fylgi

Bandalag vinstri flokka undir forystu Sósíalista, sem verið hefur stærsta stjórnarandstöðuhreyfingin síðustu ár, fékk rúm 16 prósent atkvæða, sem er töluvert minna en spáð var og um ellefu prósentustigum minna en í kosningunum 2017, þrátt fyrir fylgistap GERB.

Þetta skýrist annars vegar af innanmeinum í flokknum og hins vegar af tilkomu nýrra flokka, sem sumir voru beinlínis stofnaðir flokki Borisovs til höfuðs. Þeirra langvinsælastur reyndist flokkur söngvarans og sjónvarpsmannsins Slavi Trifonovs. Nafn flokksins, sem þýða mætti sem „Til er sú þjóð" er jafnframt heiti á plötu með formanninum.

Flokkurinn, sem stjórnmálaskýrendur segja popúlískan, fékk nær 17 prósent atkvæða samkvæmt útgönguspám. Á stefnuskránni er meðal annars helmingun á fjölda þingmanna, úr 240 í 120, breyting kosningakerfis úr hlutfallskosningu í tveggja umferða einmenningskjördæmakjör, kosningaskyldu, meiri áherslu á beint lýðræði, varðveislu „hefðbundinna fjölskyldugilda" og nánara Evrópusamstarf.

Sex flokkar ná manni á þing og Borisov líklega á útleið

Afgangurinn af atkvæðunum skiptist niður á fjölda minni flokka en gangi útgönguspár eftir komast aðeins þrír þeirra yfir fjögurra prósenta þröskuldinn sem skilur milli feigs og ófeigs í búlgörskum þingkosningum.

Tveir þeirra, Lýðræðisbandalagið og Flokkur frelsis og borgararéttinda, fengu ríflega 10 prósent atkvæða hvort um sig og sá þriðji, „Rís upp, Búlgaría“ um fjögur og hálft prósent. Vandséð er að nokkur þessara flokka eða flokkabandalaga sé áfram um að starfa með Borisov, nema mögulega Flokkur frelsis og borgararéttinda. Litlu hægri- og þjóðernissinnaflokkarnir, sem Borisov myndaði núverandi ríkisstjórn með, virðast ekki ná manni á þing.

Það er því ólíklegt að Borisov nái að hanga á forsætisráðherraembættinu að þessu sinni. Hann hefur þó ekki gefið upp vonina um það, heldur býður pólitískum andstæðingum sínum „frið“ og segir þá ófæra um að stjórna landinu án hans reynslu og þekkingar. Því stingur hann upp á að allir flokkar sameinist um að mynda einhvers konar þjóðstjórn - væntanlega undir hans forystu - um það verkefni að „komast út úr heimsfaraldrinum.“ Ólíklegt þykir að honum verði að þeirri ósk sinni.