Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hjón með þriggja mánaða barn kæra skyldusóttkví

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hjón með þriggja mánaða gamalt barn hafa kært þá ákvörðun stjórnvalda að vera skikkuð í sóttkví í sóttvarnahúsi er þau komu til landsins. Fólkið krefst þess að því verði birt ákvörðun sóttvarnalæknis um að þau skulu vera í sóttvarnahúsi og að sú ákvörðun verði borin undir héraðsdóm.

Þetta staðfestir Ómar R. Valdimarsson lögmaður hjónanna.

Þetta er fjórða kæran af þessu tagi, en í dag er búist við því að fyrirtaka fari fram við Héraðsdóm Reykjavíkur í hinum þremur málunum.  Í gærkvöldi barst Héraðsdómi kröfugerð frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni þar sem hann krefst þess að ákvörðun sín um að fólkið sæti sóttkví á sóttkvíarhóteli verði staðfest.

Í kjölfar fyrirtökunnar verður munnlegur málflutningur þeirra þriggja lögmanna sem fara með mál fólksins sem kærir og búist er við að úrskurður liggi fyrir síðar í dag.