Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fyrsti skjálftinn af stærðinni 3 frá 19. mars

Myndir teknar við gosstöðvarnar í Geldingadölum þann 31. mars 2021.
 Mynd: Guðmundur Atli Pétursson - RÚV
Jarðskjálfti, 3,0 að stærð, varð á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga skömmu eftir klukkan tvö í nótt. Upptök hans voru á 5,7 kílómetra dýpi, hálfan annan kílómetra suðvestur af Keili. Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir þetta hafa verið fyrsta skjálftann á Reykjanesskaganum sem mælist 3,0 eða stærri síðan 19. mars, og þann fyrsta af þessari stærð við Keili frá 13. mars.

Hún segir tilkynningar hafa borist um að skjálftinn í nótt hafi fundist bæði á höfuðborgarsvæðinu og í Borgarfirði. Hins vegar hafði enginn meldað sig frá Grindavík eða annars staðar af Suðurnesjum. Elísabet segir ekki hafa orðið vart frekari skjálftavirkni eða óróa af nokkru tagi við gosstöðvarnar í kjölfar skjálftans í nótt.