„Ég þori ekkert að segja hverjir þetta voru“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég þori ekkert að segja hverjir þetta voru“

04.04.2021 - 09:00

Höfundar

Auður Jónsdóttir rithöfundur á afmæli í mars og hélt hún upp á það á síðasta ári á Zoom-forritinu vegna samkomutakmarkana sem þá voru í fyrsta sinn hluti af kunnuglegum veruleika Íslendinga. Afmælið varð kveikja að handriti sjónvarpsmyndarinnar Sóttkví eftir Auði og Birnu Önnu Björnsdóttur, í leikstjórn Reynis Lyngdal, sem verður sýnd á RÚV í kvöld.

Sóttkví er stutt sjónvarpsmynd sem gerist í Reykjavík í mars 2020, í fyrstu bylgju COVID-19. Vinkonurnar Lóa, Hekla og Fjóla þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví og sækja styrk og félagsskap hver til annarrar með reglulegum fjarfundum á meðan. Auk innilokunarinnar á hver og ein við flóknar og á tíðum skoplegar aðstæður í einkalífi sínu að etja, sem magnast upp við einangrun og álag sóttkvíarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Elma Lísa Gunnarsdóttir - Aðsend
Reynir Lyngdal með eiginkonu sinni Elmu Lísu sem fer með hlutverk í myndinni.

Reynir Lyngdal leikstjóri myndarinnar lýsir henni sem stuttri sjónvarpsmynd um þrjár vinkonur sem neyðast til að fara í sóttkví eftir að hafa farið í hot yoga tíma á Seltjarnarnesi í fyrstu bylgju COVID 19. Handritið skrifa Birna Anna Björnsdóttir og Auður Jónsdóttir skáldkonur og byggir hún að hluta á þeirra reynslu af samkomubanni. „Þetta er ekki sönn saga en þetta er byggt á sönnum atburðum,“ segir Reynir leyndardómsfullur í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. „Auja á afmæli í mars og neyddist til að eiga það afmæli á Zoom. Ég held að þetta sé að einhverju leyti skrifað upp úr því en ég þori ekkert að segja hverjir þetta voru...“

Myndin er á dagskrá í kvöld, á páskadag, og segir Reynir hana tala beint inn í samtímann. „Þetta er mjög skemmtileg mynd um þrjár vinkonur sem lenda í sóttkví og smá ævintýri.“

Sóttkví er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20:20.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sjósundvinkonur í Vesturbæ sem eru að molna að innan

Leiklist

„Þig grunar ekki hver, en þetta er maðurinn þinn“