Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Útgöngubönn og lokanir aðra páskana í röð

03.04.2021 - 20:30
Erlent · Belgía · COVID-19 · Frakkland · Ítalía · Spánn · Evrópa
Mynd: EPA-EFE / ANSA
Útgöngubönn og lokanir blasa við Evrópubúum aðra páskana í röð. Á Ítalíu voru reglur hertar þannig að ströngustu takmarkanir gilda um allt land um helgina.

Í þrjá daga er öll Ítalía skilgreind sem eldrautt svæði. Það þýðir að ekki má fara út nema eftir nauðsynjum. Verslunum er skellt í lás, nema þær selji nauðsynjar, og ferðalög ættu að vera harðbönnuð. Á því var þó gerð undantekning svo nánasta fjölskylda gæti borðað saman um páskana. Löggæsla hefur verið aukin til muna og tugþúsundir lögreglumanna standa vaktina og fylgjast með hvort farið sé eftir reglum. 

Macron gaf grænt ljós á ferðalög um helgina

Í morgun tóku gildi nýjar reglur í Frakklandi. Fólk má ekki fara lengra en tíu kílómetra frá heimili sínu nema brýna nauðsyn beri til. Útgöngubann er í gildi frá sjö að kvöldi til sex að morgni um land allt. Flestum til undrunar gaf Emmanuel Macron forseti samt grænt ljós á ferðalög um helgina og fram á mánudag.

epa09111963 A view of the Pelagrugell creek packed with sunbathers on a sunny Holy Friday in Girona, Catalonia, northeastern Spain, 02 April 2021.  EPA-EFE/David Borrat
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Veðrið er ágætt á Spáni um þessar mundir.

Á Spáni var sett 4 manna samkomubann innandyra og sex manna utandyra yfir páskana. Það gildir um allt land til 9. apríl og útgöngubann er frá ellefu til sex. Annars eru sóttvarnareglur mismunandi milli héraða og til dæmis í Barcelona hefur fólk þurft að sæta útgöngubanni að kvöldi í nærri hálft ár. Þá er bannað að ferðast milli héraða, nokkuð sem pirrað hefur Spánverja, einkum í ljósi þess að ferðamenn frá öðrum Evrópuríkjum geta komið inn í landið keyrandi, siglandi eða fljúgandi með neikvætt COVID-19 próf upp á vasann. Þveröfugt við Spán þá hafa ónauðsynleg ferðalög til og frá Belgíu verið bönnuð en Belgar geta ferðast innanlands.