
Tyrkneskur stjórnarandstöðuþingmaður handtekinn
Gergerlioğlu er læknir og hefur verið þingmaður Demókrataflokksins frá árinu 2018. Hann hefur talað fyrir réttindum Kúrda og verið ötull baráttumaður fyrir mannréttindum um áratugaskeið. Hann sætti lögreglurannsókn árið 2016 vegna myndar sem hann birti á Twitter til stuðnings friðarviðræðum við Verkamannaflokk Kúrda hinn 11. október það ár. Tveimur dögum síðar var hann rekinn úr stöðu sinni á sjúkrahúsinu í Izmit.
Dæmdur í fangelsi fyrir að deila grein á Twitter
2018 var Gergerlioğlu dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að deila grein á Twitter, þar sem hvatt var til friðarviðræðna við Verkamannaflokk Kúrda og því haldið fram að friður væri innan seilingar, ef tyrknesk stjórnvöld kærðu sig um.
Vegna þessa dóms var Gergerlioğlu að endingu sviptur þingsæti sínu og þinghelgi 17. mars síðastliðinn. Í framhaldinu kröfðust tyrknesk stjórnvöld þess fyrir dómi að hann og 686 flokkssystkini hans í Demókrataflokknum yrðu útilokuð frá allri stjórnmálaþátttöku næstu fimm árin, og að Demókrataflokkurinn yrði leystur upp vegna meintra tengsla við Verkamannaflokk Kúrda, PKK.