Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tyrkneskur stjórnarandstöðuþingmaður handtekinn

03.04.2021 - 05:42
epa08554733 Ultra-nationalist Azerbaijani and Turkish people hold their national flags as they shouts slogans against Armenia in front of the Istanbul University in Istanbul, Turkey, 19 July 2020. The two neighbors have been locked in conflict over Nagorno-Karabakh, a region of Azerbaijan that has been under the control of ethnic Armenian forces backed by Armenia since a war there ended in 1994. At least 16 people, including an army general, were killed in border clashes between Armenia and Azerbaijan.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögregla í Tyrklandi handtók stjórnarandstöðuþingmanninn Ömer Faruk Gergerlioğlu og færði hann í gæsluvarðhald, eftir að dómstóll dæmdi hann til fangelsisvistar fyrir hryðjuverkastarfsemi. Hryðjuverk þingmannsins fólst í nokkrum færslum á twitter, sem ekki voru ráðandi öflum að skapi. Ríkisstjórn Tyrklands krefst þess að flokkur Gergerlioğlus, Demókrataflokkurinn, verði leystur upp og bannaður.

 

Gergerlioğlu er læknir og hefur verið þingmaður Demókrataflokksins frá árinu 2018. Hann hefur talað fyrir réttindum Kúrda og verið ötull baráttumaður fyrir mannréttindum um áratugaskeið. Hann sætti lögreglurannsókn árið 2016 vegna myndar sem hann birti á Twitter til stuðnings friðarviðræðum við Verkamannaflokk Kúrda hinn 11. október það ár. Tveimur dögum síðar var hann rekinn úr stöðu sinni á sjúkrahúsinu í Izmit.

Dæmdur í fangelsi fyrir að deila grein á Twitter

2018 var Gergerlioğlu dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að deila grein á Twitter, þar sem hvatt var til friðarviðræðna við Verkamannaflokk Kúrda og því haldið fram að friður væri innan seilingar, ef tyrknesk stjórnvöld kærðu sig um.

Vegna þessa dóms var Gergerlioğlu að endingu sviptur þingsæti sínu og þinghelgi 17. mars síðastliðinn. Í framhaldinu kröfðust tyrknesk stjórnvöld þess fyrir dómi að hann og 686 flokkssystkini hans í Demókrataflokknum yrðu útilokuð frá allri stjórnmálaþátttöku næstu fimm árin, og að Demókrataflokkurinn yrði leystur upp vegna meintra tengsla við Verkamannaflokk Kúrda, PKK.