Þórólfur: Tilgangurinn er að koma í veg fyrir bylgju

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að skyldudvöl fólks í sóttvarnahúsi sé tilraun til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi. Allt annað hafi verið reynt. Ekki komi til greina að breyta þessu fyrirkomulagi.

Þórólfur segir að þetta hafi verið ákveðið vegna þess að megnið af þeim sýkingum sem komið hafi upp hafi mátt rekja til fólks sem hafi ekki haldið sóttkví, sérstaklega fólk sem hafi verið að koma frá útlöndum. 

„Þannig að þetta var tilraun til þess að reyna að tryggja að við kæmum í veg fyrir svona útbreiðslu,“ segir Þórólfur.

Bent hefur verið á að hugsanlega hefði mátt standa öðruvísi að málum þegar fólk er með aðsetur hér á landi og getur farið í sóttkví þar. Þórólfur segir að öll þriðja bylgjan og þau smit sem hafi komið upp undanfarið megi rekja til fólks með íslenskt ríkisfang. „Og hefur farið í aðsetur þar sem það hefur ekki gengið betur en þetta.“

Nú hefur fólk sem þarna dvelur verið að lýsa aðstæðum þarna. Er þetta ekki farið að minna meira á einangrun en sóttkví? „Það er bara túlkunaratriði.“

Þarna hefur fólk hvorki möguleika á að fá sér ferskt loft né hreyfa sig  -  það hefur varla verið hugmyndin með þessu? „Við erum með ákveðnar leiðbeiningar sem gilda um sóttkví og ef menn telja að það sé ekki farið eftir því, þá þarf að skoða það. Svo er þetta spurningin um hvað þessi hótel geta gert, hvað er framkvæmanlegt.“

Finnst þér koma til greina að breyta þessu fyrirkomulagi? „Ekki finnst mér það. Það má ekki gleyma hver tilgangurinn með þessu er; að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu innanlands og lenda aftur í mikilli bylgju sem mun geta kostað okkur eitthvað dýrt.“