Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sviptist til með skriðunni eins og sykurpúði í kakói

Mynd með færslu
Aurskriðurnar á Seyðisfirði í desember hrundu af stað vinnu við könnun á aurskriðuhættu Mynd: Þór Ægisson

Sviptist til með skriðunni eins og sykurpúði í kakói

03.04.2021 - 15:55

Höfundar

„Þetta er sérútbúinn björgunarsveitarbíll. Hann sviptist bara til eins og bara „marsmellow-púði“ í kakói þegar þú hrærir í því, það var bara þannig,“ segir Vilhjálmur Ólafsson, björgunarsveitarmaður sem sem lenti í stóru skriðunni á Seyðisfirði fyrir jól. Vilhjálmur ásamt fleiri Seyðfirðingum segja sína upplifun af þessum degi í þáttunum Fjallið ræður sem eru á dagskrá Rásar 2 um páskana.

„Ég ákvað bara að halda mér“

Hluti bæjarins var rýmdur þegar skriðan féll um þrjú leytið á föstudegi. Vilhjálmur stóð vaktina fyrir hönd björgunarsveitarinnar við lokunina og fylgdist með hverjir voru að fara inn og út af svæðinu. „Ég ákvað að fara á bílnum upp Fossgötu til að sjá betur þarna upp með ánni, svo sé ég að áin er kakóbrún á litinn. Svo kemur druna og fjallið kemur niður. Þannig var það nú,“ segir Vilhjálmur, sem sá þá skriðuna, 75 þúsund rúmmetra af drullu, koma á móti sér.

„Svo kemur þessi vatnsgusa fyrst á bílinn, eins og þegar maður keyrir í stóran poll og aur og grjót á eftir. Ég byrja að bakka, bílinn tók við sér og fór eina bíllengd aftur á bak. Eina, tvær og svo fer hann að spóla í þessu. Og ég gat svo sem ekkert gert, ég ákvað bara að halda mér. Var í öryggisbelti og hvað eina,“ bætir hann við.

Færðist 83 metra með skriðunni

Vilhjálmi fannst það taka eilífð fyrir skriðuna að koma niður. „Svo kemur þetta svona í bylgjum, þegar ég hugsa um það eftir á þá finnst mér eins og bílinn hafi færst fimm sinnum til. Samkvæmt GPS-tæki sem var í honum, þá færist hann til um 83 metra. Sem er alveg töluvert sko. Það eru greinilega stórir steinar á ferðinni og hann hoppar og skoppar og á endanum þá stoppar hann nú.“

Hann segir að mikið hafi farið í gegnum hugann á stuttum tíma. „Þá hugsa ég að þarna væri nú sennilega mín síðast stund runnin upp. Ég hugsaði um fólkið mitt hérna, ég á sex ára dreng og ég hugsaði um konuna mína sem var upp á sjúkrahúsi að vinna. Ég hafði ekki hugmynd um það hvort það hefðu fallið skriður einhvers staðar annars staðar. Það voru ekki góðar hugsanir sem fóru í gegnum kollinn.“ 

Þakkar fyrir að hafa ekki hlaupið

Viltu lýsa ökutækinu sem þú varst á, hvernig í ósköpunum hélst hann á hjólunum? „Þetta er sérútbúinn björgunarsveitarbíll. Hann er af gerðinni Benz Unimog. Hann vigtar sjö tonn með búnaði sem hann var á. Og hann er á 49 tommu dekkjum og stendur hátt yfir jörðinni sko, en hann var alveg upp á hurðir í drullu þegar hann stoppaði. Og hann sviptist bara til eins og bara „marsmellow-púði“ í kakói þegar þú hrærir í því. Það var bara þannig. En það var mér til happs að ég hljóp ekki,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir sögu sína í þáttunum Fjallið ræður á Rás 2. Þriðji og síðasti þátturinn verður á dagskrá á páskadag klukkan fimm.

Mynd með færslu
 Mynd: Helgi Haraldsson - Ísólfur
Björgunarsveitarbíllinn sem Vilhjálmur var á.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Húsið mitt var bara sett í blandarann“

Austurland

Ísólfur enn jeppalaus eftir skriðuna í desember