Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir íslensk stjórnvöld ganga lengra í opnun

03.04.2021 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd: bragi valgeirsson
Íslensk stjórnvöld ganga lengra í að opna landið en kveðið er á um í tilmælum Evrópusambandsins um litakóðunarkerfið,  að sögn prófessors í lögfræði. 

Til stendur að taka upp litakóðunarkerfi sem Evrópusambandið gefur út hér á landi 1. maí. Þar er löndum skipt í græn, appelsínugul og rauð, allt eftir stöðu kórónuveirufaraldursins í viðkomandi landi. Við það bætist grár litur sem þýðir að ónógar upplýsingar liggi fyrir. Töluverð umræða hefur orðið um upptöku litakóðunarkerfisins. Hefur landlæknir til að mynda lýst efasemdum um upptökuna og segir að gæta eigi ítrustu varkárni á landamærunum og að erfitt gæti reynst að kóða sum lönd utan Evrópu þar sem minna sé skimað og upplýsingar takmarkaðar. Þá hefur Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor kallað það glapræði að taka kerfið upp. Lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík segir Ísland ekki bundið af því að nota kerfið.

„Nei, það er eingöngu um að ræða tilmæli frá Evrópusambandinu um þetta litakóðunarkerfi, þetta er ekki bindandi löggjöf. Þannig að svo lengi sem að íslensk stjórnvöld gæta jafnræðis í þeim aðgerðum sem þau grípa til á landamærum sínum gagnvart EES ríkjum, þá hafa íslensk stjórnvöld val um til hvaða aðgerða þau grípa,“ segir Margrét Einarsdóttir prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Samkvæmt tilkynningu íslenskra stjórnvalda gilda sömu kvaðir fyrir fólk frá grænum löndum og appelsínugulum; tvöföld skimun með fimm daga sóttkví, en þeir sem geti framvísað vottorði um neikvæða niðurstöðu úr fyrri skimun sem gerð var á brottfararstað séu undanþegnir sóttkví og seinni skimun. Margrét segir að tilmæli ESB kveði á um að fólk frá grænum svæðum ferðist frjálst, en stjórnvöld á hverjum stað meti hvernig tekið sé á appelsínugulum og öðrum svæðum.

„Það hefur verið aðeins misræmi í umræðunni hvort að þessi opnun á eingöngu að ná til grænna ríkja eða líka appelsínugulra ríkja. Samkvæmt tilkynningu frá stjórnarráðinu frá í janúar þá er bæði talað um opnun gagnvart grænum og appelsínugulum ríkjum, en eins og ég segi að þá samkvæmt tilmælunum þá er engin þörf á því að opna landið með þessum hætti gagnvart fólki sem er að koma frá appelsínugulum ríkjum.  Í janúar þegar þessi ákvörðun er tekin þá héldu menn að bólusetningarnar yrðu lengra komnar þannig að það má líka vera að þetta sé eitthvað sem stjórnvöld eigi eftir að endurskoða.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV