Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gosstöðvarnar lokaðar almenningi - öllum snúið við

Ljósmyndir teknar 1. apríl 2021
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Nóttin hefur verið róleg við eldsumbrotasvæðið á Reykjanesskaganum og fólk virðist flest vel upplýst og meðvitað um að umferð fólks að gosstöðvunum er óheimil í dag vegna veðurs og verður það til morguns, segir Guðmundur Eyjólfsson, vettvangsstjóri lögreglu á staðnum.

Sá háttur hefur verið hafður á síðustu daga að lokað er fyrir frekari umferð að gosstöðvunum klukkan átján, byrjað að smala fólki niður á veg klukkan 22 og opnað aftur fyrir umferð klukkan sex morguninn eftir. Þannig er það þó ekki í dag, því lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað að loka fyrir umferð upp að gosstöðvunum í Geldingadölum vegna veðurs.

Aðeins sex bílar fram til sjö í morgun

Í samtali við fréttastofu sagði Guðmundur að fyrstu ferðalangarnir hefðu mætt á vettvang milli fjögur og hálf fimm í nótt en þeir voru upplýstir um stöðu mála og snúið við. Alls hafði fólk á sex bílum komið að gosstöðvunum þegar fréttamaður ræddi við Guðmund á sjöunda tímanum í morgun, og var öllum snúið frá jafnharðan.

Þokkalegt veður var þá syðra, nokkuð vindasamt en ágætt að öðru leyti. Hins vegar má búast við því að það versni talsvert þegar líður á daginn og Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun fyrir svæðið þar sem spáð er roki og rigningu og lélegu skyggni.

Öllum verður vísað frá í dag

Guðmundur segir öllum þeim sem hyggjast leggja leið sína að gosstöðvunum í dag verða vísað frá. Suðurstrandarvegur er lokaður nærri Nátthaga í austri, og svo er vakt við upphaf göngustígana vestanmegin. Mögulega verður settur upp lokunarpóstur við Hraun, ef umferð fer að aukast.

Fimm lögreglumenn og um eða yfir 20 björgunarsveitarmenn hafa staðið vaktina í nótt og mun þeim frekar fjölga en hitt með morgninum, segir Guðmundur. Aftur verður opnað fyrir umferð gangandi fólks að gosstöðvunum klukkan sex í fyrramálið. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV