Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gert að borga fyrir hryssu sem drapst eftir raflost

03.04.2021 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Héraðsdómur Suðurlands hefur komist að þeirri niðurstöðu að Rarik sé bótaskylt vegna hryssu sem drapst þegar rafmagnsstaur brotnaði þannig að háspennulína hékk í um það bil eins metra hæð. Greina mátti brunasár í kjaftvikum hryssunnar sem dýralæknir taldi benda til að hún hefði farið að þefa eða bíta í línuna. Verðmæti hryssunnar hefði getað orðið 10 til 15 milljónir en hún var undan verðlaunahestinum Hrannari frá Flugumýri, Íslandsmeistara í fimmgangi og Landsmótssigurvegara.

Eigendur hryssunnar töldu Rarik bera ábyrgð á slysinu þar sem viðhald raflínunnar og staura hefði verið ófullnægjandi og fyrirtækið vanrækt að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir.

Þeir bentu á að rafmagnsstaurinn hefði verið reistur 1972, línan verið nálgast endalok áætlaðan líftíma og þess vegna hefði enn frekari aðgæsluskylda hvílt á Rarik að fylgjast með ástandi hennar en ella.

Eigendurnir reyndu fyrst að fá bótaábyrgðina viðurkennda hjá úrskurðarnefnd vátryggingarmála en nefndin hafnaði kröfunni.

Rarik sagði ósannað að fyrirtækið bæri ábyrgð á slysinu. Ekkert hefði komið fram í aðdraganda þess sem hefði gefið tilefni til að efast um ágæti línunnar. Tjónið mætti rekja til utanaðkomandi þátta.

Fjölskipaður héraðsdómur benti hins vegar á að engar myndir væru til af þeim búnaði sem hélt línunni uppi heldur hefði hann verið fjarlægður strax í upphafi.  Eigendum hryssunnar hefði því verið gert nánast ómögulegt að tryggja sér sönnun fyrir orsökum slyssins. Yrði Rarik að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV