Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Eðalskíthælamynd með dýrbrjáluðum Daniel Day-Lewis

Mynd: Paramount / RÚV

Eðalskíthælamynd með dýrbrjáluðum Daniel Day-Lewis

03.04.2021 - 16:51

Höfundar

There Will be Blood er kvikmynd sem stendur og fellur með því hvort aðalleikarinn hafi vald á hlutverkinu, segir Steindór Grétar Jónsson hlaðvarpsstjórnandi. Myndin er í bíóást á RÚV í kvöld.

Steindór Grétar segir að There Will be Blood sé líklega grimmasta kvikmynd Paul Thomas Anderson, leikstjóra og handritshöfundar sem varð eitt af stærri nöfnum Hollywood þegar hann gerði Boogie Nights aðeins 27 ára gamall.

„Þetta er stofnsaga Bandaríkjanna í rauninni. Myndin er auðvitað alveg tveir og hálfur tími en manni finnst hún ekki vera það löng. En ef þið hafið tækifæri til að fara út í ísbúð áður en hún byrjar og ná ykkur í einn mjólkurhristing þá parast hann mjög vel með þessari mynd.“  

Myndin byggist á bók Upton Sinclair, Oil, og fjallar um Daniel Plainview, óprúttinn olíujöfur sem sölsar undir sig land í Kaliforníu með gylliboðum en efnir engin loforð. Daniel Day-Lewis, leikarinn marglofaði sem hefur nú sest í helgan stein, stendur sig óþægilega vel í aðalhlutverkinu.

„Paul Thomas Anderson fær oft grínista í minni hlutverk,“ segir Steindór Grétar. „Paul F. Tompkins leikur þarna mann sem er að halda utan um bæjarfund. Og í einu uppistandinu hjá honum þá talar hann um reynsluna af því að vinna með Daniel Day-Lewis. Hann segir: „Margir hafa sagt mér að Daniel Day-Lewis sé svona smá yfirþyrmandi, það var alls ekki mín upplifun, það sem er rétt er að hann var mest yfirþyrmandi maður sem nokkurn tímann hefur verið uppi á jörðinni.“ Þetta var eins og það væri villt kattardýr þarna á settinu og fólk vissi ekki hvernig það ætti að hegða sér. Af því hann er náttúrulega method-leikari sem er í hlutverkinu alveg á milli þess sem tökur eru í gangi. Svo er hrópað cut og hann er bara ennþá Daniel Plainview, bara brjálaður.“

There Will be Blood er sýnd í Bíóást á RÚV klukkan 22:45.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Allar ömurlegu teikningarnar eftir leikarann sjálfan

Kvikmyndir

„Hláturinn og gráturinn kemur frá sama stað í sálinni“

Kvikmyndir

„Ekki endilega týpan sem maður myndi umgangast mikið“

Kvikmyndir

Pulp Fiction er jafnvel meira sjokkerandi núna