Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Draumur um krossfestingu

Mynd: Paolo Veronese / cc

Draumur um krossfestingu

03.04.2021 - 11:30

Höfundar

Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur fjallar um krossfestinguna og mótsögnina í því þegar Guð hafnar sjálfum sér.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Á National Gallery-safninu í London er málverk eftir Paolo Veronese frá 16. öld af heilagri Helenu, móður Konstantíns mikla, fyrsta kristna rómverska keisarans á fjórðu öld. Helena sjálf var hins vegar grísk. Málverkið nefnist Draumur heilagrar Helenu og ég stóð dolfallinn fyrir framan það síðasta sumar á hér um bil auðu safninu. Augu Helenu eru lokuð og hún er klædd í íburðamikinn kjól. Hún geymir annan fótinn uppi á bekk og hvílir höfuðið í lófanum með olnbogann á gluggasyllu. Meðan hún sefur vært svífa tveir englar hjá glugganum og þeir bera saman stóran viðarkross. 

Heilög Helena var sögð staðráðin í því að finna krossinn sem Jesú var negldur á, hinn eina, sanna kross, og þarna, í draumnum sem Veronese fangar svo vel, birtist henni svarið. Hún sér hvar krossinn er. Einhverjar heimildir herma síðan að hún hafi staulast alla leið til Palestínu í kringum árið 326 og grafið þar upp þrjá krossa í Jerúsalem. Síðan er sagt að lasburða kona hafi snert þá alla þrjá og læknast við að koma við einn þeirra, hinn eina sanna kross, sem blóð frelsarans lak niður nokkur hundruð árum áður.

Þar sem ég stóð þarna inni á National Gallery og virti fyrir mér meistaraverk Veronese fann ég svo sterkt fyrir þeim streng sem lá frá þessu augnabliki og alla leið aftur til fornaldar. Hér var ég á 21. öld að skoða málverk frá 16. öld af konu frá 4. öld sem er að dreyma um kross frá fyrstu öld. 2020 til 1580 til 326 til c.a 33. Líklega var það þessi tilfinning sem kölluð hefur niður aldanna. Og ég stóð þarna algjörlega bergnuminn, ekki bara vegna þess að verkið er svo magnað, heldur vegna þess að þetta var eitt af þessum augnablikum þar sem gáttir tímans ljúkast upp og mér fannst ég allt í einu standa eins og vofa úr framtíðinni yfir Veronese þar sem hann klórar sér í skegginu og mundar pensilinn við opinn glugga einhvers staðar í Feneyjum, í þann veginn að mála eyrað á heilagri Helenu, og hugsar með sér, Já, hvað gerðist eiginlega þarna á krossinum? 

Vofa framtíðar ferðast til baka

Og allt í einu er vofa mín komin til Rómar og ég stend við hliðina á Konstantín þar sem hann leikur sér með marmarakúlur í æsku. Hann er bara drengur í fínum sandölum og mamma hans er búin að vera að segja honum frá Kristi. Og ég er líka viðstaddur þegar hann síðan gerist kristinn, fertugur að aldri, keisari til sex ára og tuttugu og fimm til viðbótar. Þegar Sylvester páfi eys vatni yfir höfuð keisarans ímynda ég mér að þeir séu báðir að velta fyrir sér ráðgátunni um það hvað gerðist eiginlega á krossinum, krossinum sem Helena mamma Konstantíns finnur síðan tíu árum síðar eftir að hafa séð hann í draumi, draumi sem Paolo Veronese málaði síðan á striga 1200 árum síðar, og ég sá síðan tæpum 450 árum eftir það, póstmódernískur, síðkapítalískur póst-Guðstrúar Reykvíkingur með strípur í Ascics-skóm á listasafni í London.

Og ég hef hugsað talsvert um þetta sjálfur, alveg síðan frændi minn, sem er guðfræðingur, opnaði þennan heim fyrir mér. Hvað gerðist eiginlega á krossinum? Hvernig átti þessi mótsögn allra mótsagna sér stað, þegar Guð yfirgaf sjálfan sig á krossinum, þegar Guð hafnaði sjálfum sér á krossinum, þegar Guð gerðist guðleysingi á krossinum, þegar Guð dó á krossinum, dó uppi á Hauskúpuhæðinni sem hann hafði sjálfur skapað. Og þarna hefur hann í raun lafað alla tíð síðan þau negldu hann á tréð. Krossfestingin er einn af þessum atburðum sem er svo svakalegur, svo ofsafenginn og yfirgengilegur, að hann brýtur af sér hlekki tímans. Elí, Elí, lama sabaktaní! Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? segir Jesú, aftur og aftur, árþúsund líða, þyrnikórónan kremur höfuðið, blóðið seytlar úr hársverðinum niður vangana, og Heilög Helena svarar, ég veit það ekki, Konstantín keisari svarar, ég er ekki viss, Paolo Veronese svarar, ég er ekki alveg klár á því, og Halldór Armand svarar, ég satt best að segja er ekki alveg með þetta. 

Sjö setningar frá guðlausum Guði

En ég hef verið með krossfestinguna á heilanum alveg síðan ég kveikti loksins á því hversu makalaus atburður hún var. Ég get ekki ímyndað mér neitt sem jafnast á við hana. Hvort sem við trúum á eitthvað sem við köllum Guð eða ekki, þá held ég að allir hljóti allir að geta tekið undir það að það er algjörlega með ólíkindum að hugsa til þess að þetta dæmi, saklaus maður myrtur á krossi fyrir 2000 árum síðan, sé einn helsti hornsteinn þeirrar heimsmyndar sem við búum við. Það er sama hvar niður er borið – krossfestingin er engu lík. Hún er svo myndræn, það er svo svakalegt að sjá þetta fyrir sér, hún er svo existensíalísk og sönn, geymir djúp sannindi um mannlega tilveru, hún er svo ægilega sorgleg og dramatísk, sjáðu Maríu fyrir þér, eina og grátandi fyrir framan úthræktan náinn og hlustaðu á sálminn sem ómar hér í bakgrunni og sjáðu þetta fyrir þér. Stabat mater dolorósa, juxta Crucem lacrimósa, dum pendébat Fílius. Hin syrgjandi móðir, stendur grátandi við krossinn, þar sem sonur hennar hangir. 

Jesú virðist hafa verið heldur þögull þessa klukkutíma sem hann hékk uppi á krossinum. Guðspjöllin hafa sjö setningar eftir honum. Það eykur vitaskuld á ráðgátuna hvað maðurinn var fámáll. Ein leið til þess að líta á það hvað nákvæmlega gerist þegar afkvæmi Guðs deyr er gríska orðið kenosis, sem vísar til einhvers konar róttækrar sjálftæmingar. Dæmi um þetta hugtak er í öðrum kafla Filippíbréfsins þar sem Páll postuli skrifar um Jesú: „Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.“

Þegar Jesú gefur upp öndina er Guð að tæma sköpunarverkið af sjálfum sér. Það er hin æðsta fórn. Þessi hugmynd bergmálar víðar í Biblíunni, sjálfsafneitun og sjálftæming Krists er fylgjendum hans leiðarvísir um það hvernig á að lifa. Þú lifir fyrir aðra, trú þín á Guð birtist í ást þinni á öðrum, og ást er alltaf öfgafull – að elska er að tæmast af sjálfum sér. Ég heyrði einu sinni skemmtilega kenningu þess efnis að það sé engin trú róttækari en hin kristna vegna þess að í henni sé Guð sjálfur trúleysingi. Hann efast um sjálfan sig, yfirgefur sjálfan sig og deyr síðan inni í eigin sköpunarverki og frelsar þannig heiminn. Er til rosalegri myndlíking um ástina? 

En hvað rekur menn til þess að myrða Guð? Af hverju var Jesú krossfestur? Ein af eftirlætissenum guðfræðingsins frænda míns úr Biblíunni er í Jóhannesarguðspjalli, 18:38, þegar Jesú er nýbúinn að halda því fram við Pontíus pílatus að hver sem sé af sannleikanum heyri hans rödd. „Pílatus segir við hann: Hvað er sannleikur?“ Og Jesú bara svarar því ekkert. „Pældu í því, Dóri,“ sagði frændi minn við mig þegar hann las þetta upp fyrir mig. „Gaurinn fattar ekki að hann er með sannleikann beint fyrir framan nefið á sér.“ Og við þetta varð ég einhvern veginn ástfanginn af þessari senu líka. Bæði vegna þess að það er nóg að frændi minn dýrki hluti til þess að ég dýrki þá líka, en líka vegna þess að hún geymir þennan yfirgengilega sannleika um sannleikann sjálfan. 

Það er sama ástæða fyrir því að Jesú svarar Pílatusi ekki um hvað sannleikurinn er og að hann var síðan myrtur á krossinum. Hún er sú að menn ráða ekki við sannleikann. Sannleikurinn það síðasta sem menn vilja heyra. 

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Við erum ekki öll almannavarnir

Pistlar

„Farsæld lifandi manns er ekki til“

Pistlar

Lifðu í heilbrigðri óskynsemi

Pistlar

Samfélög rifna upp og niður