Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Svíþjóð: Játar dráp en neitar sök

02.04.2021 - 03:52
Mynd með færslu
 Mynd: svt
Karlmaður á þrítugsaldri sem handtekinn var í skánska smábænum Höör á miðvikudag, grunaður um að hafa myrt 18 ára konu þar í bæ, játaði í gær að hafa orðið henni að bana. Hann þvertekur þó fyrir að hafa myrt hana. Lögreglan á Skáni greindi frá því í gærkvöld að hún hefði að öllum líkindum fundið morðvopnið.

Unga konan hvarf aðfaranótt þriðjudags, þegar hún var á heimleið frá vinafólki. Lík hennar fannst síðdegis á miðvikudag, en þá hafði lögregla þegar handtekið 25 ára gamlan sveitunga hennar, sem grunaður var um að eiga þátt í hvarfi hennar.

Rökstuddur grunur um morð

„Hinn handtekni játaði við yfirheyrslur lögreglu að hafa orðið konunni að bana. Hann segir það ekki hafa verið ætlun sína að deyða hana, og neitar því sök,“ segir í fréttatilkynningu saksóknara. Játning hins grunaða og hnífur sem fannst í tjörn í bænum, og talinn er vera morðvopnið, leiddu engu að síður til þess að hann hefur verið ákærður, grunaður um morð. „Ég lít svo á að fyrir liggi rökstuddur grunur um morð og hef því farið fram á gæsluvarðhald,“ segir í tilkynningu saksóknarans.

Höör er um 12.000 manna smábær í hjarta Skánar í Suður-Svíþjóð. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV