Margir líta nágranna hýru auga

Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason / RÚV
Íbúar ellefu sveitarfélaga greiða í ár atkvæði um að sameinast nágranna sveitarfélögum sínum. Þreifingar eða viðræður í sameiningarátt standa yfir á fimmtíu og einu prósenti landsins - landfræðilega séð. Þar búa um 6% íbúa. Talsverð hreyfing hefur verið í sameiningu sveitarfélaga undanfarin misseri. Tvö ný sveitarfélög hafa orðið til á síðustu árum; Múlaþing á Austurlandi og Suðurnesjabær á Suðurnesjum. Nú eru sveitarfélög landsins 69 og talsverðar líkur á að þeim fækki á næstunni.

Í sumar og í haust á að greiða atkvæði í 11 sveitarfélögum um sameiningu við nágranna. Á Norðvesturlandi verður kosið 5. júní í Blöndósbæ, Húnavatnshreppi, Skagabyggð og Sveitarfélaginu Skagaströnd um sameiningu þessara fjögurra sveitarfélaga í eitt tæplega 2000 manna sveitarfélag. 

Sama dag verður kosið í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit um sameiningu sveitarfélaganna tveggja í eitt 1300 manna sveitarfélag. 

Og á Suðurlandi er stefnt að atkvæðagreiðslu samhliða þingkosningum 25. september. Þar greiða íbúar í Ásahreppi, Rangárþingi ytra, Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi atkvæði um sameiningu í 5300 manna sveitarfélag. Það myndi ná frá Þjórsá í vestri inn á Skeiðarársand í austri og langt inn í land að Tungnafellsjökli, þar sem við tekur Þingeyjarsveit - sem gæti sameinast Skútustaðahreppi í sumar og þar verður þá til annað enn víðfemara sveitarfélag. 

Hvert sveitarfélag þarf að samþykkja sameiningu

Einfaldur meirihluti í hverju sveitarfélagi fyrir sig ræður niðurstöðunni. Sé sameining felld í einu sveitarfélagi, verður ekkert af henni. Vilji hin sveitarfélögin sameinast, þá þarf að kjósa aftur. 

Ýmislegt skilur sveitarfélögin að, en eitt eiga þau flest sameiginlegt og það er maður að nafni Róbert Ragnarsson. Hann er fyrrverandi bæjarstjóri í Vogum og Grindavík og rekur nú fyrirtæki sem veitir sveitarfélögum ráðgjöf meðal annars í sameiningarferli. Og hann og samstarfsfólk hans kemur að þeim langsamlega flestum.

Mynd með færslu
 Mynd: Grindavíkurbær - RÚV
Róbert Ragnarsson hefur komið að flestum sameiningarviðræðum undanfarið.

„Þessi verkefni  sem eru núna í vinnslu ná yfir 51% af öllu landsvæði á Íslandi og á þessum svæðum búa um 6% íbúanna,“ segir Róbert. 

Þarna vísar Róbert líka til fleiri sveitarfélaga sem eru í sameiningarhugleiðingum en eru skemmra komin. 
Nágrannarnir Langanesbyggð og Svalbarðshreppur við Þistilfjörð sem eru í könnunarviðræðum.  Svalbarðsstrandarhreppur í Eyjafirði er í svokallaðri valkostagreiningu sem má segja að sé fyrsta stigið og sveitarfélögin Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Vogar og Strandabyggð velta því fyrir sér hvaða nágrannar eru bestu valkostirnir. Dalabyggð hefur nýlokið valkostagreiningu. Þar verður litið til allra átta, sex valkostir eru í stöðunni. Það líta sem sagt ýmsir nágranna sína hýru auga. 

Stefnumótaleikur sveitarfélaganna

„Ég hef stundum sagt meira í gamni en alvöru, en þetta er kannski ágætis líking að þetta er svolítill stefnumótaleikur. Það er aðeins verið að „testa“ og eigum við að ræða saman og hver er álitlegast kosturinn og þannig að fyrst eru svolítið óformlegar þreyfingar og fólk er að velta fyrir sér kostum og göllum og er líklegt að við náum að vera sterkari með þessum nágrönnum frekar en hinum,“ segir Róbert. „Þá eru þetta viðræður sem fara fram á milli kjörinna fulltrúa og stjórnenda sveitarfélaganna og svo leita þeir sjónarmiða íbúanna. Þá er kannski komin mynd á hvað þeir vilja gera.“

Eftir það hefjist hið raunverulega ferli. Það taki yfirleitt 12 mánuði að fara í gegnum formlegar sameiningarviðræður. Næst taki við kosningar og sé sameiningartillagan samþykkt taki við að búa til nýtt sveitarfélag. 

„Þá hefst þetta innleiðingarverkefni sem tekur um það bil aðra tólf mánuði,“ segir Róbert. „Það fer eftir því hvað það eru mörg sveitarfélög og hversu flókið þetta er. Og þá þarf að kjósa nýja sveitarstjórn. Það skiptir máli hvernig þessi verkefni raðast í kringum reglubundnar sveitarstjórnarkosningar. Þannig að þetta eru stór og mikil stefnumótunarverkefni sem að taka svolítinn tíma.“

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Samgöngubætur snúast ekki bara um jarðgöng og brýr heldur bætta héraðs- og tengivegi innan sveita. Klofningsvegur telst til tengivega.

En snúum okkur að hagsmununum, til hvers að sameinast öðru sveitarfélagi?

Róbert bendir á að mörg sveitarfélög sjái fyrir sér að fjölmennara sveitarfélag hafi aukinn slagkraft í hagsmunagæslu.

„Þau geta sótt fram í samgöngumálum, geta tekist á við auknar kröfur íbúanna og löggjafans í stjórnsýslu, geta þróað stafræna stjórnsýslu og þjónustu þannig að þetta eru þeir hagsmunir sem þau eru einhvernvegin að reyna að ná utan um og leggja mat á,“ segir Róbert. Íbúar sveitarfélaga þurfi að spyrja sig hvort það sé líklegt að sveitarfélagið sé betur í stakk búið að gera þetta í einu sameinuðu sveitarfélagi eða hvort það séu fleiri leiðir?

Frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar sveitarstjórnarráðherra um breytingar á sveitarstjórnarlögum gerir ráð fyrir því að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá sveitarstjórnarkosningum á næsta ári og eittþúsund frá 2026. Tuttugu lítil sveitarfélög sameinuðust um að berjast gegn þessu og virðast hafa náð eyrum ráðherrans. Fyrr í mars sagðist ráðherra vera jafnvel tilbúinn að breyta frumvarpinu. Lágmarksíbúafjöldinn yrði markmið, fremur en skylda. Í sumum fámennum sveitarfélögum er hreinlega ekki áhugi á að sameinast öðrum. 

„Sérstaklega í þeim sveitarfélögum sem að búa við einhverja sterka tekjustofna og geta verið með lægri skatta og gjöld,“ bendir Róbert á. „Þau eru nokkur og svo eru sveitarfélög, litlir kjarnar og þorp eða bæir sem hafa bara staðið sig vel og eru með öflugt atvinnulíf og þau sjá engan sérstakan tilgang í þessu. Og það verður bara að virða það við þau og leyfa þeim þá að spreyta sig en þau munu þurfa að takast á við þessa stafrænu þróun líka og berjast fyrir sínum hagsmunum,“ segir hann. „Miðað við það sem við höfum séð núna í þessum þróunarverkefnum með stafræna stjórnsýslu og þjónustu þá þarftu bara að hafa svolítinn slagkraft og þekkingu til að geta tekið þátt í þeim breytingum. Og ef að sveitarfélögin ætla að gera þetta hvert fyrir sig þá hugsa ég að það geti orðið svolítið snúið.“

Ýmsu sé þó hægt að ná fram með samstarfi á milli sveitarfélaga - það hafi sína kosti og galla rétt eins og sameining. Íbúar og sveitarstjórnarmenn þurfi einfaldlega að vega þetta og meta. 

Íbúar vilja halda skólum, sérkennum og þjónustu

Eitt kemur fram á öllum íbúafundum segir Róbert. Fólk vill alls ekki missa skólann úr samfélaginu við sameiningu við annað sveitarfélag. Fólk vill líka verja félagsheimilin og sérstöðuna á hverjum stað.

Mynd með færslu
 Mynd: Laugalandsskóli í Holtum
Krakkarnir í Laugalandsskóla í Holtum sprettu úr spori í Skólahlaupinu fyrir tveimur árum. Það skiptir íbúa í litlum sveitarfélögum miklu máli að halda skólunum í sveitinni.

Íbúar vilja áfram hafa áhrif á það sem skiptir mestu máli í þeirra nánasta umhverfi, eins og skipulag og einstaka þjónustuþætti að sögn Róberts. 

„En það sem þau vilja ná fram er aukinn slagkraftur í atvinnu- og samgöngumálum og aðallega í samgöngumálum og af því að þetta eru dreifbýl svæði og miklar vegalengdir þá eru það sem heitir héraðs- og tengivegir og það eru allir malarvegirnir sem að tengja saman sveitirnar sem á eftir að leggja slitlag á. Þetta eru ekkert alltaf jarðgöng eða risavaxnar brýr heldur 100-200 km af bundnu slitlagi á vegi sem að börn eiga að keyra í skóla.“ 

Áhrif íbúa í gegnum heimastjórnir

Í hinu nýja Múlaþingi á Austurlandi var farin sú leið að setja kjörnar heimastjórnir í gömlu sveitarfélögin. Róbert segir að við sameininguna fyrir austan hafi skipt miklu máli að samfélögin héldu sinni sérstöðu. Það hafi í reynd verið lykilatriði og vitnar til íbúanna.

„Við erum að búa til sveitarfélag. Við erum að búa til stjórnsýslu. Við ætlum ekki að hætta að vera Seyðfirðingar eða Borgfirðingar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Já sæll ehf. - Facebooksíða Já sæll ehf.
Fjarðarborg er til ýmissa hluta nytsamleg.

Róbert nefnir að á Borgarfirði eystra, sé félagsheimilið Fjarðarborg algjört lykilatriði í allir menningu.

„Þau vilja bara fá að hafa hlutina eins og þau eru vön. Það er enginn að fara að breyta því. Þannig að heimastjórnin á Borgarfirði heldur utan um menninguna og þessi „lókal“ mál þannig að menn halda bara áfram að vera Borgfirðingar og gera það sem þeir eru vanir. Og á Borgarfirði er ákvörðnartaka yfirleitt mjög einföld. Ég vil fá að gera eitthvað. Þá segir sveitarstjórinn: „Það verður örugglega í lagi.“ Og menn vilja fá að halda í því. Að einföld mál fari ekki í eitthvert fimm vikna ferli í ákvarðanatöku á Egilsstöðum,“ segir Róbert. 

Þingeyingar og Húnvetningar ætla ekki að vera með heimastjórnir í sameinuðum sveitarfélögum, verði af þeim. Á Suðurlandi er fyrirkomulagið enn í mótun, þar eru fjórir byggðakjarnar og talsverðar fjarlægðir. Róbert býst því fremur við að einhverskonar heimastjórnir verði þar.

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV