Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Litlu hægt að svara um mötuneyti

02.04.2021 - 08:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fátt var um svör þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, svaraði fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um mötuneyti sveitarfélaga. Andrés Inga fýsti meðal annars að vita hversu mörg mötuneytin væru, hvort þau rækju eigin eldhús eða keyptu þjónustu annars staðar frá, hvernig loftslagsmálum væri sinnt og hvaða stefnu væri fylgt um framboð á grænkerafæði.

Starfsfólk samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins leitaði til Sambands íslenskra sveitarfélaga og óskaði eftir milligöngu um að afla upplýsinga vegna fyrirspurnarinnar. Þar fékkst það svar að ekki væri réttlætanlegt að fara í upplýsingaöflun sem fyrirspurnin krefðist þar sem upplýsingarnar væru verulega umfangsmiklar og lægju ekki fyrir. Bent var á að sveitarfélögin væru 69 talsins og byggðakjarnarnir öllu fleiri. Starfsfólk sveitarfélaganna fyllti yfir 20 þúsund stöðugildi og nemendur í grunn- og leikskólum væru 65 þúsund talsins. Þá væru ekki taldir með þeir einstaklingar sem njóta þjónustu sveitarfélaga, svo sem eldri borgarar og fatlað fólk. Því gætu sum sveitarfélög verið með mörg mötuneyti en önnur eitt eða ekkert. 

Ekki liggja fyrir upplýsingar um áætlað kolefnisspor af mötuneytum sveitarfélaga og þar með ekki hversu stóran hluta megi rekja til framleiðslu matvæla, matvælaflutnings og matarsóunar. Ekki kemur heldur fram hvernig hlutfall matvæla sem uppfylla vistvæn skilyrði hefur þróast undanfarin ár í mötuneytum sveitarfélaga. 

Andrés Ingi spurði einnig að hve miklu leyti innkaupastefna matvæla fyrir ríkisaðila hefði verið nýtt af sveitarfélögum og vísaði sérstaklega til aðgerða til að auka áherslu á fæði úr jurtaríkinu og draga úr neyslu á kjöti. Innkaupastefnan var samþykkt 2019 og koma flestar aðgerðir til framkvæmda í ár og í fyrra. Í svari ráðherra kom fram að flestar þær aðgerðir sem sveitarfélög geti nýtt í sinni starfsemi séu ekki komnar til framkvæmda eða ekki komin nægjanleg reynsla á breytt verklag til að sveitarfélögin geti nýtt innkaupastefnuna í starfsemi sinni. Þó bendir ráðherra á ráðleggingar landlæknisembættisins um næringu fyrir hina ýmsu aldurshópa og útgáfu margvíslegra leiðbeininga og handbóka.