Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gengið mjög vel í dag en kærkomin lokun á morgun

Eldgosið í Geldingadölum í Fagradalsfjalli 23. mars 2021.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka fyrir umferð upp að gosstöðvunum í Geldingadölum á morgun, laugardag. Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun fyrir svæðið, en spáð er roki og rigningu, síðar súld og jafnvel snjókomu og lélegu skyggni.

Í tilkynningu lögreglu segir að ekkert ferðaveður verði á svæðinu upp að gosstöðvunum. Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að lokunin sé fyrst og fremst gerð af öryggisástæðum.

„Við verðum náttúrulega með vakt þarna eftir sem áður en hún er í algjöru lágmarki. Það má segja að þetta komi sér ágætlega því álag á björgunarsveitarfólk og viðbragðsaðila hefur verið gríðarlegt undanfarna daga og í sjálfu sér er þetta kærkomið. En það er stefnt að því að opna svæðið síðan aftur á páskadagsmorgni klukkan sex,“ segir Gunnar.

Hvernig hefur annars gengið í dag?

„Í dag hefur gengið bara verð ég að segja mjög vel. Umferðarskipulag hefur haldið, bílastæði hafa ekki fyllst. Sætaferðir frá Grindavík hafa verið vel nýttar og ég man nú bara ekki eftir tilkynntu óhappi. Ekki ennþá,“ segir Gunnar Schram yfirlögregluþjónn.